138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

stjórnskipun Íslands.

[10:55]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra svörin. Það er gott að heyra að verið sé að vinna í þessum málum í forsætisráðuneytinu og að þetta verði skoðað líkt og annað sem þarf að gera, ekki bara í ljósi þeirra atburða sem urðu hér fyrir ári síðan heldur í ljósi löngu tímabærra endurbóta og umbóta á íslensku stjórnkerfi. Þetta hangir allt saman.

Kröfurnar um breytingar sl. vetur voru ekki síst kröfur um betri vinnubrögð, gegnsæi og lýðræðislegri stjórnskipun Íslands. Þess vegna þurfum við nýja stjórnarskrá, þess vegna þurfum við að fækka ráðuneytum og jafnvel gera ríkisstjórnina að fjölskipuðu stjórnvaldi. Þess vegna þurfum við færri og sterkari ríkisstofnanir og breytt og betri vinnubrögð. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)