138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

bréf forsætisráðherra til forsætisráðherra Bretlands og Hollands.

[11:01]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Finnst þér þetta ekki ótrúlegt? Forsætisráðherra landsins kemur hér og lýsir því yfir að ekki hafi borist svar, hæstv. forsætisráðherra hafi ekki verið virt viðlits af forsætisráðherrum Bretlands og Hollands á meðan á þessari milliríkjadeilu stóð, sem ég held að hæstv. forsætisráðherra sjálf hafi kallað mestu milliríkjadeilu í sögu landsins.

Engu að síður er forsætisráðherrann búin að beita sér fyrir því allan tímann að verja málstað þessara sömu erlendu forsætisráðherra. Hæstv. forsætisráðherra fær ekki svar en heldur samt ótrauð áfram og beitir sér fyrir undirritun samningsins. Hún beið ekki eftir því að vera virt svars, forsætisráðherrann, sem viðurkennir hér enn í dag að hún þekki ekki grundvallaratriði Icesave-málsins eins og gengisáhættu upp á hundruð milljarða kr. Forsætisráðherra hefur áður viðurkennt að hún þekki ekki grundvallaratriði eins og hvernig úthlutað er úr búinu. Það eru önnur hundruð milljarða kr. til eða frá. Þessi forsætisráðherra beitir sér fyrir því að Alþingi samþykki þetta mál. (Gripið fram í.)