138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

5. mál
[11:38]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Þór Saari fyrir þetta frumvarp. Efnislega er ég sammála mjög miklu sem þar kemur fram en mig langaði að beina til hans tveim atriðum.

Í fyrra lagi er 1. gr. þar sem fjallað er um að 10% kosningarbærra manna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu. Efnislega er ég sammála þessu, ég velti hins vegar fyrir mér hvað hafi orðið til þess að þau ákváðu að hafa 10% þarna inni en ekki 15%, þ.e. hvernig þessi prósentutala er til komin. Það sama á við þar sem talað er um að ákveðinn minni hluti þingmanna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu, ég velti líka fyrir mér hvað hafi komið til að þau ákváðu það hlutfall sem þar er.

Síðan er það 2. gr., þ.e. þar sem fjallað er um Lýðræðisstofu. Það eru sem sagt komnar fram tvær tillögur um þjóðaratkvæðagreiðslur, önnur frá Borgarahreyfingunni, eða þá Hreyfingunni, og hin er ríkisstjórnarfrumvarp, og sá munur sem er á þessum tillögum er þessi Lýðræðisstofa. Í þingsályktunartillögu sem var samþykkt á síðasta þingi og tengist aðildarumsókn að Evrópusambandinu er fjallað um þessa Lýðræðisstofu og að hún eigi samkvæmt nefndaráliti meiri hlutans sem ég studdi reyndar ekki að sjá um þessar þjóðaratkvæðagreiðslur og mig langaði að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi með einhverjum hætti komið að því að inn í þetta nefndarálit færi þessi Lýðræðisstofa þar sem ég get ekki séð að þetta sé í frumvarpi ríkisstjórnarinnar.