138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

5. mál
[11:42]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil segja það aftur hér að ég er efnislega sammála hv. þingmanni um 1. gr. og það sem þar er, en ég velti hins vegar fyrir mér þessum hlutföllum og held að allsherjarnefnd ætti að ræða þau frekar.

Mig langar aftur að spyrja hann út í Lýðræðisstofu þó að það kannski tengist ekki alveg beint þessu, en tengist þó: Átti hann einhvern þátt í því að Lýðræðisstofa rataði inn í nefndarálitið? Í þingsályktunartillögu ríkisstjórnarmeirihlutans varðandi þjóðaratkvæðagreiðslur er fjallað um að hugsanlega yrði fyrsta þjóðaratkvæðagreiðslan um aðild að Evrópusambandinu. Í þessu sama nefndaráliti er fjallað um Lýðræðisstofu sem er í frumvarpi því sem hv. þingmaður mælir hér fyrir en er ekki í frumvarpi ríkisstjórnarinnar og því velti ég fyrir mér hvort hann sjái fyrir sér að þetta muni sameinast að einhverju leyti, þessi frumvörp, eða hvernig hann sjái fyrir sér að þetta verði.

Enn og aftur ítreka ég spurningu mína um það hvort hann eða fulltrúar hreyfingarinnar hafi átt einhverja aðkomu að því að þessi Lýðræðisstofa rataði inn í nefndarálitið.