138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

5. mál
[11:44]
Horfa

Flm. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var einmitt þetta sem ég hafði ekki tíma til að svara hérna áðan. Lýðræðisstofa er tilgreind í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar um aðildarumsókn að Evrópusambandinu og þar er farið mjög ítarlega út í með hvaða hætti sú kosning á að fara fram. Lýsing á þeirri kosningu er tekin nánast orðrétt upp úr greinargerð með þessu frumvarpi. Það er rétt að ég og Borgarahreyfingin, sem þá var, komum beinlínis að því að fá þennan texta þar inn sem hluta af stuðningi okkar við aðildarumsóknina á sínum tíma. Við fjölluðum mikið um það og útskýrðum rækilega fyrir m.a. utanríkisráðherra hve mikilvægt það væri að þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild að Evrópusambandinu yrði vönduð og færi fram eftir mjög faglegum leiðum.

Það er rétt að í frumvarpi forsætisráðherra um þjóðaratkvæðagreiðslur sem búið er að útbýta á þinginu er ekki rætt um Lýðræðisstofu. Það er von mín og vonandi verður niðurstaðan sú að þessi tvö frumvörp renni að einhverju leyti saman og að lýðræði og almenningur fái þá að njóta góðs af í þeim skilningi að þá verði teknir meiri hlutar upp úr þessu frumvarpi en því sem fyrir liggur frá forsætisráðherra. Það er greinilegur vilji til þess, eða var, hjá utanríkismálanefnd og mjög mörgum á þinginu að hér verði sett lög um þjóðaratkvæðagreiðslur sem verði almenn, skilmerkileg og vönduð. Við höfum reynt af fremsta megni að gera frumvarpið þannig úr garði að svo verði og að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu sem framkvæmd verði geti verið eins óumdeilanleg og mögulegt er. Ef það er ekki gert eru þjóðaratkvæðagreiðslur í rauninni marklausar, þær verða að geta farið fram vel og með vönduðum hætti og (Forseti hringir.) vonandi fáum við að sjá það fljótlega.