138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

5. mál
[11:51]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Frú forseti. Mig langar að byrja á því að taka undir með hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur um mikilvægi þess að þjóðaratkvæðagreiðslur verði bindandi og ég vona þar af leiðandi einmitt að þverpólitísk sátt náist um þetta frumvarp. Þegar það var lagt fram í sumar fengum við ábendingar um ýmsa þætti sem betur mættu fara, við höfum tekið tillit til þeirra og rætt þær og lagfært frumvarpið lítillega, en væntum þess að það fái ítarlega yfirferð í allsherjarnefnd og komist þar í þverpólitískan farveg sem æskilegur er fyrir mál er varða stjórnarskrá okkar.

Nokkur veigamikil atriði frumvarpsins má finna í nefndaráliti meiri hlutans varðandi aðildarumsókn að ESB. Því mun sú yfirvofandi þjóðaratkvæðagreiðsla styðjast við þær leiðir sem Hreyfingin leggur til að fara varðandi framkvæmd slíkra atkvæðagreiðslna. Þá er jafnframt stuðst við tillögur okkar er varða Lýðræðisstofu. Því ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að fara alla leið og finna þverpólitíska sátt um mikilvægi þessarar leiðar.

Í kjölfar hrunsins hafði almenningur enga lögmæta leið til að koma ríkisstjórninni frá og krefjast kosninga og því brá fólk á það örþrifaráð að trufla störf þingsins sem og ríkisvaldsins. Óeirðir voru á næsta leiti og það munaði bara hársbreidd að til blóðsúthellinga kæmi. Táragas var notað í annað sinn í sögu þjóðarinnar, fólk skaðaðist á sál og líkama. Því er mjög brýnt að tryggja að þjóðin fái lýðræðislegan farveg til umbreytinga á óásættanlegu ástandi eins og skapaðist hér í kjölfar hrunsins.

Mikið er talað um að hér hafi orðið siðrof, gjá á milli þjóðar og þings og almennt vantraust ríkir gagnvart þingheimi. Því er nauðsynlegt að skapa hérlendis andrúm trausts á milli þjóðar og þings. Nauðsynlegt skref í þá átt er að færa þjóðinni meiri völd hvort sem hún kýs að nýta sér þau eður ei.

Þjóðaratkvæðagreiðslur eru sjálfsagður réttur almennings til að hafa meiri áhrif á sín mál, sitt samfélag og sinn heim. Okkur ber að verða við þeirri einlægu ósk almennings að hafa slíkt verkfæri til að veita þinginu nauðsynlegt aðhald ef þörf er á.