138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

5. mál
[11:58]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að halda langa ræðu en mig langar til að þakka þingmönnum Hreyfingarinnar fyrir að leggja þetta ágæta mál fram. Það eru vissulega nokkur atriði sem þarf að skoða eins og prósentuhlutfallið og það verður væntanlega gert í allsherjarnefnd, ég á ekki von á því að það sé neitt sem þingmennirnir ætla að festa sig algjörlega í.

Ég tek heils hugar undir það að 1/3 þingmanna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu og miðað við hvernig framkvæmdin hefur verið í Danmörku, sem hefur reynst mjög vel, held ég að það geti reynst mjög vel hér á landi. Ég tel nefnilega mjög mikilvægt á þessum tímum að við styrkjum stjórnarandstöðuna. Frá því að ég tók sæti á Alþingi á árinu 2007 hafa eingöngu verið stigin skref í þá átt að veikja stjórnarandstöðuna. Til dæmis var þingskapalögunum breytt á þann hátt að ræðutíminn var takmarkaður. Það má vel vera að það hafi mátt minnka hann á einhvern hátt en það var eitt sterkasta vopn stjórnarandstöðunnar til að koma í veg fyrir mál eða til að vekja athygli á málstað sínum og það var í rauninni tekið í burtu.

Svo vek ég líka athygli á því að menn gátu hér áður fyrr tekið til máls um fundarstjórn forseta og komið sínum málum að eins og hæstv. forseti gerði iðulega meðan hún var óbreyttur þingmaður en ákvað svo upp á sitt eindæmi að breyta venjunni og er núna farin að túlka á annan hátt.

Ég bendi líka á að hér sköpuðust oft fjörugar umræður um störf þingsins þar sem hægt var að taka góð mál sem hæstv. utanríkisráðherra beitti sér mjög í og kannski skapaði hans pólitíska feril fyrst og fremst. [Hlátur í þingsal.] (Utanrrh.: … ekki merkilegur.) Ekki merkilegur, nei, jú, mér finnst hann reyndar ágætur. Þetta eru allt saman vopn sem stjórnarandstaðan hafði. Ég bendi á það að þegar þingskapalögin voru samþykkt á sínum tíma beittu þingmenn Vinstri grænna sér mjög fyrir því að þau yrðu ekki samþykkt. Því væri áhugavert að vita afstöðu þeirra núna.

Þetta var í rauninni útúrdúr frá því ágæta máli sem hér hefur verið lagt fram en ég tel það mál hluta af þeirri heild sem við þurfum að ráðast í, eins og t.d. varðandi stjórnlagaþingið. Það hefur verið eitt af baráttumálum okkar framsóknarmanna að það verði að veruleika og við höfum hvergi gefið eftir í þeirri baráttu. Ég held að við verðum að reyna með einum eða öðrum hætti að styrkja Alþingi, styrkja eftirlitshlutverkið. Ég held að það sé eina leiðin til þess að auka virðingu almennings á þinginu. Á meðan Alþingi er veikt, á meðan það hefur ekki lagaleg tæki til að beita sér eins og það á að gera og meðan þrískipting ríkisvaldsins virkar ekki verður ekki almennileg virðing borin fyrir Alþingi.

Að þessu sögðu vil ég bara segja að frumvarpið er ágætt og ég styð það í öllum meginatriðum. Ég hef svo sem ekki miklar skoðanir á því hvert þetta prósentuhlutfall á að vera en reikna með að gaumgæfilega verði farið yfir það í allsherjarnefnd.