138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

bætt afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum.

23. mál
[12:34]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Það mál sem er hér til umfjöllunar er mikilsvert og þarft. Það er til þess fallið að bæta skilyrði og samkeppnishæfi atvinnufyrirtækja í þessum landshluta, þ.e. á Vestfjörðum, og öryggi íbúa. Það er nú þannig að Vestfirðingar hafa mátt búa við mikið óöryggi í þessum efnum undanfarna áratugi og eiginlega bara frá upphafi. Það líður vart sá mánuður yfir vetrartímann að ekki verði rafmagnslaust um einhvern tíma einhvers staðar á svæðinu.

Vissulega getur verið rómantískt á síðkvöldum að vetri til þegar rafmagnið fer og maður fær tækifæri til að kveikja á kertum og margir sjá þetta í ákveðnum hillingum, fjölskyldan dregur upp spilastokkinn og svona, en sannleikurinn er sá að af þessu hlýst líka verulegt og umtalsvert óöryggi fyrir almenning. Það er auðvitað ekki ásættanlegt eins og stundum hefur borið við eins og á síðasta ári þegar var t.d. rafmagnslaust dögum saman í Árneshreppi á Ströndum. Þá er nú farið að vandast málið og verða erfið lífsskilyrðin á harðasta vetrartímanum þegar rafmagn fellur út svo dögum skiptir.

Það hefur verið erfitt fyrir hátæknifyrirtæki og atvinnulífið almennt að vinna við þær aðstæður sem hafa ríkt í raforkumálum á Vestfjörðum. Fyrirtæki eins og 3X Stál á Ísafirði hafa beinlínis orðið fyrir tjóni vegna rafmagnsleysis og vafalaust á það við um fleiri. Heimilistæki og fleira í almennu heimilishaldi skemmist og endist verr en ella þegar óöryggi er á spennunni.

Í ársgamalli skýrslu Landsnets um afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum, sem er öllum aðgengileg á netinu, má sjá að enginn landshluti býr við meira óöryggi í raforkumálum en Vestfirðingar. Þar kemur skýrt fram að þetta ófremdarástand hefur í för með sér umtalsverðan samfélagslegan kostnað sem í skýrslunni er metinn á um 84 milljónir á ári en ég gæti trúað að það væri varlega áætlað.

Ýmsar leiðir hafa verið nefndar til úrbóta en virkjun Hvalár í Ófeigsfirði er, að ég gæti trúað, raunhæfasta og aðgengilegasta úrræðið þegar allir kostir eru skoðaðir, jafnvel þó að sú virkjun verði dýr. Raunar er Hvalá eini augljósi virkjunarkosturinn sem við höfum fyrir þetta svæði en með henni yrði komið á ígildi tvöfaldrar raforkutengingar sem mundi stórbæta afhendingaröryggi raforkunnar og þar með stórbæta samkeppnisstöðu atvinnulífsins á svæðinu.

Sá böggull fylgir skammrifi að til þess að Hvalárvirkjun geti talist arðbær þyrfti að fella niður tengigjald hennar, eins og Fjórðungssamband Vestfirðinga, Orkubú Vestfjarða og Ísafjarðarbær hafa lagt til í sameiginlegri áskorun til ríkisstjórnarinnar. Gríðarlega mikið er í húfi fyrir byggðarlögin á Vestfjörðum að þessum umbótum verði við komið og brýnt að hraða þeim sem frekast er kostur, því eins og fram kom í máli hv. flutningsmanns, hv. þm. Einars Kristins Guðfinnssonar, er áætlað að hinn samfélagslegi ábati gæti numið um tveimur milljörðum kr. auk þess sem ábatinn fyrir Landsnet var á sínum tíma metinn á um 500 millj. kr.

Frú forseti. Þegar að kreppir í samfélagi eins og okkar og horfa þarf í hverja krónu er brýnt að stjórnvöld hafi skýra sýn á það hvernig fjármunum samfélagsins skuli best varið. Í því sambandi hlýtur það að standa jafnaðarmönnum og raunar öllum sanngjörnum mönnum næst að horfa til þess hvort einstaklingar, hópar eða heilu byggðarlögin standa jafnfætis öðrum í samfélaginu. Það er staðreynd að Vestfirðingar hafa áratugum saman staðið höllum fæti gagnvart mörgum brýnum samfélagslegum verkefnum. Ég nefni samgöngurnar á svæðinu, sem enn eru fjarri því að geta talist sambærilegar við það sem gerist annars staðar á landinu. Ég nefni fjarskiptin og háhraðatengingarnar sem lengst af hafa verið mun lakari þar en annars staðar þó að það standi nú sem betur fer reyndar til bóta vegna tiltekta hæstv. samgönguráðherra. Síðast en ekki síst nefni ég óöryggið sem þessi landshluti býr við í raforkumálum og er að sjálfsögðu tilefni þeirrar þingsályktunartillögu sem hér er til umræðu.

Allt þetta skiptir sköpum fyrir búsetu og atvinnulíf hvar sem er. Vestfirðingar hafa í gegnum tíðina skaffað þjóðarbúinu drjúgar tekjur með fiskveiðum og útgerð og gera það enn þó að þeir megi að sjálfsögðu muna sinn fífil fegurri á því sviði. Íbúar svæðisins greiða sömu skatta og taka á sig sömu skyldur og aðrir landsmenn og gott betur því að þeir hafa líka tekið á sig þyngri lífskjör með hærri húshitunarkostnaði, háum flutningskostnaði og þar með vöruverði vegna erfiðra samgangna og þannig mætti lengi telja. Það mál sem hér er til umræðu er því ekki aðeins brýnt lífshagsmunamál fyrir alla Vestfirðinga, atvinnulíf þeirra, heimilisrekstur, hátækni og almenn búsetuskilyrði. Bætt raforkuöryggi fyrir þennan landshluta er sanngirnismál sem hlýtur að höfða til allra stjórnmálaflokka í samfélagi sem kennir sig við lýðræði og velferð árið 2009.

Ég skora á hið háa Alþingi að taka nú höndum saman með flutningsmönnum þessarar þingsályktunartillögu, sem eru vel að merkja allir þingmenn í kjördæminu, um að veita þessu máli brautargengi því að þetta er ekki aðeins sanngirnismál, þetta er í raun og veru jafnréttismál.