138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

bætt afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum.

23. mál
[12:41]
Horfa

Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þá ágætu umræðu sem hér hefur farið fram og er auðvitað mjög samhljóða enda hafa tekið þátt í henni flutningsmenn að þessu máli. Ég held að hér hafi verið komið að kjarna málsins sem snýr að því sem býr baki þessari tillögu.

Það sem ég held að sé ástæða til að undirstrika í lok umræðunnar er einfaldlega þetta: Þessi tillaga fjallar um það að fela ríkisvaldinu að hjálpa til við að byggja það sem við höfum kallað innviði samfélags. Hingað til hefur ekki verið mjög mikill ágreiningur um það að ríkisvaldið hafi þar hlutverki að gegna. Við erum einfaldlega að benda á það að til þess að hægt sé að byggja upp þessa innviði með skynsamlegustum hætti, þ.e. með því að efla raforkuframleiðslu á Vestfjörðum sjálfum, þurfi ríkið að styðja við bakið á þeirri uppbyggingu með því að fella niður tengigjöld sem nema þeirri upphæð sem nefnd er hér í greinargerðinni.

Hinn kosturinn, að gera það ekki en ætla samt að byggja upp þessa innviði mun líka hafa kostnað í för með sér fyrir hið opinbera. Mér finnst ástæða til þess að undirstrika þetta vegna þess að það er ekkert óeðlilegt að viðbrögð einhverra sem e.t.v. gera sér ekki grein fyrir eðli þessa máls gætu verið þau að óeðlilegt sé að fella niður þessi tengigjöld, það sé eðlilegt að raforkuframleiðslan sé þannig að hún standi undir þessu tengigjaldi. Ef menn komast að þeirri niðurstöðu verða menn auðvitað að fara aðrar leiðir, a.m.k. að því gefnu að til þess sé pólitískur vilji — sem ég hygg að sé til staðar — að þessir innviðir eins og aðrir innviðir séu byggðir upp á Vestfjörðum eins og við höfum gert með samfélagslegu átaki annars staðar á landinu. Þetta er í raun og veru kjarni málsins

Við, flutningsmenn málsins, erum að fara fram á það að þessir innviðir séu á sama hátt byggðir upp með aðstoð og tilstyrk hins opinbera til þess að fólkið á Vestfjörðum hafi sömu tækifæri því að raforkuöryggið, alveg eins og hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir sagði hér áðan, er bæði spurning um öryggi og möguleika í uppbyggingu atvinnulífsins en ekki síður beint fjárhagslegt spursmál fyrir almenning, fyrir íbúana, fyrir fjölskyldurnar, fyrir heimilin sem hafa orðið fyrir beinu fjárhagslegu tjóni vegna skorts á raforkuöryggi. Ég veit ekki hvort fólk áttar sig á því sem hefur ekki upplifað það að kannski á miðjum degi er rafmagnið allt í einu farið, atvinnulífið stöðvast, eða á kvöldin þegar fólk sest fyrir framan sjónvarpið til að fylgjast með því sem þar fer fram að þá er það skyndilega ekki mögulegt.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði, það getur verið voðalega rómantískt á kvöldin að sitja við kertaljós og hafa það huggulegt. En vilji menn gera það er þá ekki eðlilegt að menn hafi til þess frjálst val og slökkvi þá á fínu rafmagnsljósunum sínum? Ekki að það sé gert vegna þess að aðstæðurnar séu þannig að stuðlað sé að því nánast með — hvað á að segja? — skorti á stjórnvaldsaðgerðum að menn séu oftar í svona rómantísku umhverfi á Vestfjörðum en annars staðar. Ég held að það sé ekki það sem við erum að sækjast eftir, svo ég sletti aðeins gamanmálum.

Kjarni málsins er þessi: Við erum í þessari tillögu að fara fram á það að með eðlilegum hætti sé komið að því að byggja upp þessa innviði á Vestfjörðum eins og við höfum gert annars staðar, líkt og við byggjum upp innviði samfélags okkar á öðrum sviðum.

Ég tel að kjarni málsins sé á vissan hátt fólginn í tillögu sem lögð var fram af forustumönnum allra flokka í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar og samþykkt samhljóða. Ég ætla að leyfa mér í lokin að lesa hana orðrétt, með leyfi forseta:

„Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar telur að skýrsla Landsnets frá því í mars 2009 undir heitinu „Bætt afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum“ sýni fram á að Hvalárvirkjun sé skynsamlegasta leiðin til að tryggja afhendingaröryggi í raforkumálum á Vestfjörðum. Allt tal um að ekki sé þörf á reiðuafli Hvalárvirkjunar — og hún geti því ekki verið þjóðhagslega arðsöm — skýtur skökku við þegar nýir virkjanakostir um land allt eru sífellt í umræðunni. Með Hvalárvirkjun eykst auk þess tryggt reiðuafl á svæðinu sem opnar á möguleika á nýjum atvinnutækifærum sem í dag eru lokaðir.

Bæjarstjórn skorar á stjórnvöld að breyta raforkulögum þannig að Landsnet fái lagalega heimild til að fella niður fyrirhugað tengigjald vegna Hvalárvirkjunar.“

Þetta finnst mér vera kjarni málsins. Og af því að hér er sérstaklega vísað til raforkulaga er það svo að það er lögbundin skylda, sem nú er verið að uppfylla að ég hygg, að fara yfir reynsluna af raforkulögunum sem sett voru 2005. Ætlunin er að skila áliti, ef ég best man, á næsta ári. Út af fyrir sig er ekkert því til fyrirstöðu að opna á hina lagalegu heimild þrátt fyrir að heildarendurskoðun raforkulaganna sé ekki lokið og vel má vera að niðurstaðan af þessari vinnu, sem hér er verið að leggja af stað með að tilstuðlan okkar sex þingmanna, leiði til þess að þessum einangraða þætti raforkulaganna verði breytt til að opna á þessa heimild. Það er auðvitað það sem þetta mál allt saman snýst um.

Virðulegi forseti. Ég undirstrika og ég vil í lokin þakka eingöngu góðar viðtökur. Þetta mál hefur líka fengið mjög góðar viðtökur í almennri umræðu, þetta hefur kallað á umræður á vettvangi Vestfirðinga og það er engin spurning að mikill einhugur er að baki þessu. Ég trúi því líka, eins og hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir sagði og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson enn fremur, að sanngirnisrök séu hér að baki og ég trúi því að með tilliti til þeirra muni Alþingi komast að sömu niðurstöðu og við sem stöndum að þessari tillögu höfum komist að.