138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

álversuppbygging á Bakka við Húsavík.

[13:35]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ein af meginástæðum þess að ég hef umræðu um álversuppbyggingu á Bakka er að umræðan hefur að mínu mati verið afar ómálefnaleg og einkennst af upphrópunum og vanþekkingu. Kannski má segja að stundum hafi hún jaðrað við trúarofstæki. Ég vona heils hugar að umræðan verði sanngjörn en leiðist ekki út í fordóma við þau störf sem álver skapar.

Ástæðan fyrir því að íbúar á Norðausturlandi hafa ákveðið að setja stefnuna á álver og fengið Alcoa til liðsinnis við sig við að kanna þá orku sem er til staðar er fyrst og fremst sú að störfum hefur fækkað á Norðausturlandi, m.a. í sjávarútvegi og landbúnaði. Sú þróun hefur leitt til viðvarandi fólksfækkunar eins og fram kemur í skýrslu Byggðastofnunar frá því í júlí 2008. Íbúum í Þingeyjarsýslum hefur fækkað um 31% frá árinu 1991 og þar af hefur ungu fólki, 18–40 ára, fækkað um 24%. Þessi þróun hefur fyrst og fremst átt sér stað vegna þess að þegar fólk missir vinnuna flytur það í burtu, í flestum tilfellum á suðvesturhornið, og það mætti segja að það atvinnuleysi sem mælist á höfuðborgarsvæðinu eigi rót sína að rekja til uppsafnaðs atvinnuleysis frá þeim svæðum sem nutu ekki þensluáhrifa. Það er fyrst og fremst þess vegna sem 83% af íbúum svæðisins telja að álver komi til með að hafa jákvæð áhrif á búsetuskilyrði á Norðausturlandi.

En af hverju álver? Af hverju ekki eitthvað annað? Jú, í fyrsta lagi vegna þess að í öllum tilvikum hefur stóriðjan glætt atvinnulíf í nærsamfélagi sínu og stækkað atvinnusvæði umtalsvert, t.d. hefur íbúum á Vesturlandi fjölgað um 25% frá árinu 1977 er uppbygging hófst með járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga og síðan hefur álver bæst þar við. Samkvæmt sömu skýrslu voru íbúar á Austurlandi árið 2003 ríflega 12.000 en þar hefur nú fjölgað um rúmlega 1.300 vegna áhrifa frá starfsemi Fjarðaáls.

Hvaða áhrif hefur álverið á Reyðarfirði haft á nærsvæðið þar? Á álverslóðinni einni starfa um 700 manns. Þá eru ótalin störf þeirra aðila sem hafa fulla atvinnu beinlínis vegna starfsemi fyrirtækjanna. Hagfræðistofnun segir að alls megi áætla að kaup álfyrirtækjanna þriggja á innlendri vöru og þjónustu árið 2008 hafi numið um 25 milljörðum kr., innlendar launagreiðslur um 10 milljörðum kr. og opinber gjöld til ríkis og sveitarfélaga um 2,5 milljörðum. Það þarf því ekki að fletta neinum blöðum um það hversu þjóðhagkvæmar þessar aðgerðir eru.

Er eitthvað annað sem hægt væri að reyna? Íbúar og sveitarfélög í Norður-Þingeyjarsýslu hafa reynt allt annað, hafa kannað fjölmörg atriði í þaula, þar á meðal kísilflöguverksmiðju en við nánari skoðun kom einfaldlega í ljós að ekki reyndist fótur og grundvöllur fyrir þeirri starfsemi.

Það er mikilvægt að hafa eitt í huga í þessari umræðu. Eitt af meginmarkmiðunum með samstarfi við Alcoa var að skoða fýsileikann við að byggja álver í landi Bakka þar sem forsenda fyrir slíku var að kanna mögulega afkastagetu háhitasvæða í Þingeyjarsýslum. Að því verkefni hefur verið unnið í allmörg ár en því miður gekk það ekki eftir þar sem fjórir af átta framkvæmdaþáttum verksins voru skikkaðir í sameiginlegt mat með ólöglegum úrskurði Þórunnar Sveinbjarnardóttur, þáverandi umhverfisráðherra. Verkefnið hefur nú frestast um eitt ár með ótrúlegum kostnaði fyrir þá sem að verkinu koma.

Ég skora því á hæstv. iðnaðarráðherra að halda Alcoa (Forseti hringir.) að verkefninu. Aðkoma Alcoa er gríðarlega mikilvæg við að finna þá orku sem er í húfi (Forseti hringir.) og koma þessu verkefni aftur af stað eftir þær tafir sem Samfylkingin (Forseti hringir.) setti á fyrir um ári.