138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

álversuppbygging á Bakka við Húsavík.

[13:49]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Fyrr í haust tilkynnti iðnaðarráðherra um þá niðurstöðu ríkisstjórnarinnar að endurnýja ekki viljayfirlýsingu við Alcoa um orkunýtingu á Norðausturlandi. Í stað þeirra yfirlýsinga sem áður höfðu verið í gildi við það eina fyrirtæki um hugsanlega nýtingu á orkunni þar hefur verið gert samkomulag við sveitarstjórnirnar á svæðinu, Norðurþing, Skútustaðahrepp og Þingeyjarsveit, um samstarf þessara aðila á sviði orkurannsókna og atvinnuuppbyggingar í Þingeyjarsýslum.

Í samkomulaginu kemur fram að aðilar þessa máls eru sammála um mikilvægi þess að velja einn eða fleiri trausta, ábyrga, fjárhagslega sterka aðila til samstarfs um atvinnuuppbyggingu sem byggir á hagnýtingu orkunnar frá háhitasvæðunum í Þingeyjarsýslum. Sömuleiðis er lögð áhersla á að orkan sem er að finna á háhitasvæðunum í Þingeyjarsýslum verði nýtt til að skapa varanleg störf á svæðinu. Samkomulag ríkisstjórnarinnar og sveitarfélaganna miðar að því að vinna að því að ljúka ýmsum rannsóknum og undirbúningsvinnu á svæðinu til að hægt verði að hefja nýtingu á þeirri orku sem til staðar er.

Þetta nýja samkomulag ríkisstjórnarinnar við sveitarfélögin þar nyrðra er að mínu viti mikið heillaskref fyrir íbúa Íslands og íbúana á svæðinu. Nú hafa allir sem áhuga hafa aðgang að þessari orku og að nýta hana í stað þess að henni hafi verið haldið fyrir einn aðila fram til þessa. (HöskÞ: Þetta er rangt.)

Forseti. Hv. þm. Höskuldur Þórhallsson hefur aldrei leynt því að hann er mikill áhugamaður um stóriðju og mikill stóriðjusinni. Því til staðfestingar skrifar hann bráðskemmtilega grein í Fréttablaðið í dag þar sem hann segist meira að segja heyra óminn af rödd gamla Leníns í eyrum sér og segir að það sé ekki gæfulegt ef Lenín eigi að leiða þjóðina út úr vandræðunum, þá fyrst verði við vanda að etja. Það er líklega leitun að öðrum eins stóriðjusinna og Lenín gamli var, sá maður trúði á stóru lausnirnar fyrst og fremst eins og Framsóknarflokkurinn og Höskuldur og, virðulegi forseti, það skyldi þó aldrei vera að gamli góði Lenín hafi verið framsóknarmaður.