138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

álversuppbygging á Bakka við Húsavík.

[13:51]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Það er fallegt á Bakka við Húsavík. Ég keyrði þar fram hjá sex sinnum í sumar, fagrar, grænar, aflíðandi brekkur, fallegt útsýni, falleg strönd. Það væri fallegt að hafa þar kálver en ekki álver eins og komið hefur fram. (Gripið fram í: Mikil arðsemi.) Það er mikil arðsemi af þeim, já.

Þessi umræða um álver á Bakka snýst um margt. Hún snýst m.a. um það að orkan er ekki ótakmörkuð. Raforkuframleiðsla úr jarðgufu er 12% nýting á orkunni. 88% af orkunni er sóað. Raforkuframleiðsla til áliðnaðar þýðir að fyrir hvert eitt starf í álveri þarf eitt megavatt af virkjaðri orku. Eitt megavatt af virkjaðri orku dugir fyrir 18 störfum í grænmetisrækt. Ein kílóvattstund af orku dugir fyrir 0,1 starfi í álveri en fyrir 16 störfum hjá garðyrkjubændum. Hér er verið að sóa orku. (HöskÞ: Þetta er ekki rétt.) Ef hugmyndin er að byggja upp atvinnulíf (HöskÞ: Þetta er rangt.) er ekki til meiri orkusóun en virkjun til áliðnaðar. Þetta snýst um eignarhald á auðlindum, hverjir eiga auðlindina, hverjir eiga orkuna, hverjir eiga landið og náttúruna.

Ég leyfi mér að benda á að í stóru samhengi þurfum við að velta fyrir okkur hvað eigi að virkja, hvernig eigi að virkja og til hvers eigi að virkja. Hvað liggur á? Náttúran hefur, eins og mennirnir einfaldlega, bara gildi í sjálfri sér, burt séð frá notkunargildi eða peningagildi.

Ég keyrði líka sex sinnum í gegnum Húsavík í sumar. Það er rífandi kraftur á Húsavík, meiri kraftur á Húsavík en í öllum nærliggjandi sveitarfélögum á Norðausturlandi. Það bara er þannig. Eini staðurinn þar sem ég lenti í meira fjöri var á sveitaballinu sem ég fór á í Skúlagarði þannig að það er ekki allt í ömurlegheitum á Húsavík (Forseti hringir.) eða á Norðausturlandi og ég bið menn að minnast þess.