138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

álversuppbygging á Bakka við Húsavík.

[13:53]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegur forseti. Ég man þá tíð sem hæstv. iðnaðarráðherra minntist á, þegar menn sátu og biðu eftir álverum eða einhverjum þeim hugmyndum sem kæmu utan frá. Það gerðist ekki neitt. Alþýðuflokkurinn var þá í stjórn, síðan komu framsóknarmenn til stjórnar og þá hófst uppbygging atvinnulífs, ekki síst á landsbyggðinni. Hér er rætt um raunverulegan áhuga ríkisins á að styðja við atvinnuuppbyggingu og stuðning við frumkvæði heimamanna. Spurt er: Hvað vill ríkið? Hver er ábyrgð ríkisstjórnarinnar?

Í ljósi fyrirspurnar hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur fyrr í dag um fjölskipað Stjórnarráð, um sameiginlegar og samábyrgar ákvarðanir ríkisstjórnar og nauðsyn þess að koma á slíku fjölskipuðu valdi, er hálfsérkennilegt að hugsa til þess að hefði slíkt fyrirkomulag verið við lýði þegar hv. þingmaður og þáverandi umhverfisráðherra tók afar umdeilda ákvörðun um sameiginlegt umhverfismat hefði slík ákvörðun væntanlega aldrei komið til af samhentri ríkisstjórn, ríkisstjórn sem hefði talað einni röddu, ríkisstjórn sem hefði staðið við fyrri yfirlýsingar og undirskrifaða samninga. Hin umdeilda ákvörðun olli töfum en var á engan hátt betri stjórnsýsla, verri ef eitthvað var. Á engan hátt er það sjálfgefið að sameiginlegt mat á fjórum þáttum af átta gefi betra umhverfismat. Ákvörðunin var pólitísk og hafði þær afleiðingar að verkefninu seinkaði, verkefni sem snýst um að kanna hvort nægileg orka upp á 400–500 megavött sé til á svæðinu. Ef hún reynist ekki til er álvershugmyndin út af borðinu. Þá skapast rými fyrir eitthvað annað. En þetta eitthvað annað verður að hafa andlit og kennitölu. Því verður að fylgja raunverulegur áhugi og fjármagn.

Verkefnið við Bakka er bakkað upp af heimamönnum. Fyrir liggur staðfest svæðisskipulag allra sveitarfélaga. 83% íbúanna telja verkefnið jákvætt. Yfirlýsing ríkisvalds, sveitarfélagsins og Alcoa frá 2006 gaf einmitt íbúunum aukna trú og bjartsýni, hækkaði fasteignaverð og jók eftirspurn eftir lóðum jafnt til íbúðar sem atvinnureksturs, á Húsavík sem og annars staðar. Í uppbyggingu atvinnulífs, baráttu um betri byggð, varnarbaráttu þar sem reynt er að snúa vörn í sókn hvað varðar íbúaþróun, (Forseti hringir.) hærri tekjur, hærra menntunarstig og trú á nærsamfélagið er samstaða nauðsyn og ríkisvaldið verður að standa við bakið á heimamönnum. (VigH: Heyr, heyr.)