138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

álversuppbygging á Bakka við Húsavík.

[13:56]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þessi umræða er þörf og mikilvæg. Atvinnumál úti á landi eiga að vera í forgrunni atvinnuumræðu hér á landi vegna þess að það vantar fjölbreytni í störf úti á landi.

Á síðustu árum hefur ríkisvaldið einbeitt sér að því að skapa einhæfni í störfum úti á landi. (HöskÞ: Síðustu tvö ár.) Það er miður. Síðustu 15 ár, hv. þm. Höskuldur Þórhallsson, hefur þróunin verið á einn veg. Við þurfum að snúa þessu við og skapa fjölbreytni í störfum úti á landi. Ég horfi t.d. til Norðurþings þar sem áherslan á liðnum tímum hefur verið á sjávarútveg og landbúnað og einhæfni hefur skapast fyrir vikið. Við þurfum þriðju víddina sem er t.d. iðnaður en fyrst og fremst þurfum við eftirsótt og verðmæt störf sem jafnt konur sem karlar vilja vinna við til að fá sem breiðustu vídd í atvinnumál á svæðinu. Þannig og ekki öðruvísi byggjum við upp atvinnulíf á staðnum. (HöskÞ: Sammála.) Það má þess vegna heita álver í mínum huga en aðalatriðið er þetta. Tvennt er mikilvægt í þessu efni, þingmenn svæðisins vilja að orkunni verði varið til þessa svæðis og hitt er viljayfirlýsing sem iðnaðarráðherra undirritaði ásamt Norðurþingi, Skútustaðahreppi og Þingeyjarsveit. Þar er komin leið til að sækja þessa vinnu en ekki bíða endalaust eftir henni. Við getum ekki beðið endalaust þegar við höfum verðmæta orku í iðrum jarðar, græna orku. Þá bíðum við ekki, þá sækjum við eftir verðmætum og eftirsóttum störfum íbúunum á svæðinu til heilla. (Forseti hringir.) (BjörgvS: Heyr, heyr.)