138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

álversuppbygging á Bakka við Húsavík.

[14:02]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Þessi þúsundblómastefna Vinstri grænna er því miður bara í nefnd. Ég get ekki séð að hún hafi skapað nokkurt starf, hvorki á landsbyggðinni né annars staðar.

Það eru nokkur atriði sem mig langar til þess að svara á þeim stutta tíma sem ég hef, vegna þess að hér komu ansi margar rangar fullyrðingar í umræðunni. Því hefur verið haldið fram að það sé nýmæli að Skútustaðahreppur og Þingeyjarsveit komi að þessu máli og það er rangt. Þau hafa allan tímann verið inni í myndinni sem aðilar að Þeistareykjum og tekið fullan þátt í því verkefni sem heimamenn hafa unnið að. Hér segir hæstv. iðnaðarráðherra að þetta sé einhver lausn hjá framsóknarmönnum. Það eru heimamenn sem hafa að vandlega athuguðu máli ákveðið (Gripið fram í.) að fara þessa leið, 83%, og þeir hafa kannað alla kosti, sama hvað vinstri grænir segja og þeir samfylkingarmenn sem eru vinstra megin eða vinstri grænir, en það verður líka að geta þeirra samfylkingarmanna í þessari umræðu sem eru framsóknarmenn. (Gripið fram í.)

Því er haldið fram að verkefnið hafi ekki tafist einn dag þegar úrskurður umhverfisráðherra kom. Hvernig væri að hæstv. iðnaðarráðherra mundi hér koma fram og biðjast afsökunar á því að hér hafi síðasta ríkisstjórn, ráðherra Samfylkingarinnar, komið með úrskurð sem braut í bága við lög, samkvæmt umboðsmanni Alþingis. Það er því ekki fjárskortur sem hefur valdið því að verkefnið hefur tafist.

Auðvitað þarf fjármagnið að koma einhvers staðar frá. Þess vegna leituðu menn til Alcoa því að þeir hafa verið með í verkefninu frá upphafi, leggja fé til rannsókna, eru búnir að leggja til um einn milljarð. (Forseti hringir.) Svo er talað um að þetta „eitthvað annað“ sé á leiðinni. Ég vil fá skýr svör hvað það er. Hvað er þetta „eitthvað annað“? Það er engin biðröð (Forseti hringir.) og fólk þarf að átta sig á því. (Gripið fram í.)