138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

álversuppbygging á Bakka við Húsavík.

[14:08]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (ber af sér sakir):

Frú forseti. Það er margt sagt í þessum ræðustól en þegar þingmenn koma upp og segja beinlínis ósatt, tala væntanlega gegn betri vitund, eins og hv. þm. Höskuldur Þór Þórhallsson gerði hér í ræðu sinni áðan — mér er sagt að þingmaðurinn sé löglærður, það má vera að það sé satt, ég er farin að efast um það. Sé maðurinn löglærður og hafi þingmaðurinn, frú forseti, — háttvirtur, verð ég víst að segja — kynnt sér umhverfislöggjöf á Íslandi ætti honum að vera kunnugt um að úrskurðir umhverfisráðherra fyrr og síðar og úrskurður sá sem kveðinn var upp sumarið 2008 um sameiginlegt mat á Bakka var ekki ólöglegur. Hefði hann verið ólöglegur væri væntanlega búið að taka málið fyrir dómstóla og fá niðurstöðu í því.

Ég bið, frú forseti, að þess verði gætt hér í þessum þingsal að þingmenn komi hér ekki upp í krafti þinghelgi sinnar og ljúgi upp á aðra þingmenn.