138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

89. mál
[14:11]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Úr einu álveri í annað, ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um heimild til samninga um álver í Helguvík.

Þann 7. ágúst sl. var, eins og hv. þingi er kunnugt um, undirritaður fjárfestingarsamningur milli ríkisstjórnar Íslands, Century Aluminum Company og Norðuráls Helguvíkur ehf. um byggingu og rekstur álvers í Helguvík. Var sú undirritun í samræmi við vilja og lög héðan frá Alþingi, nr. 51/2009, um þessa heimild til samninga um álverið.

Í samræmi við ákvæði EES-samningsins um ríkisaðstoð hafði fjárfestingarsamningurinn, sem og lögin sem samþykkt voru hér á síðasta ári á fyrri stigum, verið tilkynntur til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) og óskað eftir staðfestingu á að samningurinn og lögin væru í samræmi við ákvæði EES-samningsins. Með vísan til þessa var fjárfestingarsamningurinn ekki undirritaður fyrr en niðurstaða ESA lá fyrir sem var sama fyrirkomulag og viðhaft var varðandi álverið fyrir austan. Þann 23. júlí sl. barst stjórnvöldum ákvörðun ESA þess efnis að sú ríkisaðstoð sem í fjárfestingarsamningnum felst væri heimil og vel innan marka leyfilegrar byggðaaðstoðar samkvæmt reglum EES-samningsins um ríkisaðstoð.

Í ákvörðun ESA frá 23. júlí sl. voru hins vegar gerðar athugasemdir við tvö atriði í fjárfestingarsamningnum sem kalla á lagabreytingar þær sem lagðar eru til með þessu frumvarpi. Hið fyrra snýr að gildistíma samningsins. Í lögunum kemur fram að samningurinn skuli gilda eigi skemur en í 20 ár frá því að framleiðsla hefst í álverinu og síðan væri hægt að framlengja hann um önnur 20 ár þannig að í raun var um að ræða 40 ára samning. Að mati ESA er ekki unnt að heimila veitingu ríkisaðstoðarinnar lengur en til 20 ára og ber því að miða það tímamark við dagsetningu undirritunar samningsins en ekki þegar framleiðslan hefst. Kallar sú athugasemd ESA á breytingu á orðalagi í 2. mgr. 1. gr. laganna frá því í vor, sbr. 1. gr. þessa frumvarps sem liggur nú fyrir þinginu.

Síðari athugasemd ESA snýr að frávikum frá reglum um stimpilgjald. Í lögunum er að finna ívilnandi reglur fyrir Norðurál Helguvík um greiðslu stimpilgjalds, bæði hvað varðar byggingu og rekstur álversins sem og endurfjármögnun. Með frumvarpinu er lagt til að umræddu ákvæði um stimpilgjöld verði breytt til samræmis við athugasemd ESA á þann veg að heimild til frávika verði þrengd þannig að frávik frá stimpilgjöldum verði afmörkuð eingöngu við skjöl sem eru gefin út í beinum tengslum við byggingu álversins sjálfs en ekki síðan rekstur þess í framhaldinu.

Samþykki ESA á þessari ríkisaðstoð sem hinn undirritaði fjárfestingarsamningur kveður á um er því háð þeim breytingum á þessum lögum nr. 51/2009 sem lagðar eru til með þessu frumvarpi.

Eins og fram hefur komið í kostnaðarumsögn með frumvarpinu verður ekki séð að það muni hafa áhrif á útgjöld ríkissjóðs.

Að þessu sögðu mælist ég til þess að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. iðnaðarnefndar.