138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

89. mál
[14:19]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. iðnaðarráðherra vék með nokkrum orðum að EES-málum. Í máli mínu kom ekki fram nein athugasemd við aðild okkar að EES, ég var bara að vekja athygli á staðreyndum. Ég vakti líka athygli á þeirri staðreynd að hæstv. ráðherra vill að fleiri ákvarðanir verði teknar suður í Brussel en er í dag. Ég vakti bara athygli á þessu.

Varðandi ræðu hæstv. ráðherra að öðru leyti tók ég eftir því að hún nefndi ekki einu orði mjög umdeilda ákvörðun umhverfisráðherra um sameiginlegt umhverfismat sem nú er í ferli, opið fyrir kærur fram í desember, og ljóst að sú ákvörðun hefur þegar valdið mjög miklum töfum á öllum framgangi málsins. Eins er ljóst að áform ríkisstjórnarinnar um sérstaka skattheimtu á orkufrekan iðnað sem kynnt eru í fjárlagafrumvarpi hafa auðvitað gert það að verkum að þeir aðilar sem að þessum verkum standa (Forseti hringir.) eru í mikilli óvissu um hvert starfsumhverfi þeirra verður. Þetta setur auðvitað fjármögnun verkefna af þessu tagi í uppnám.