138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

89. mál
[14:27]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hann kveikti bara svo mikið í mér þegar hann fór að tala um nýfjárfestingarnar almennt að mér fannst ég verða að koma aðeins inn á þær, og þá líka tala um eitthvað jákvætt til tilbreytingar.

Þegar ég sagði að líklega hefði þetta ekki áhrif var ég eingöngu að vísa í það sem forustumenn ríkisstjórnarinnar hafa sagt um þessi mál, þ.e. að það komi til greina að nýfjárfestingar verði undanþegnar og þar af leiðandi leiði það af sjálfu sér og sömuleiðis að þetta verði einhvers konar tímabundin ráðstöfun. Það á ekki bara við um þessa skattlagningu, við erum að fara í mjög þunga skattlagningu á miklu fleiri þætti samfélagsins en akkúrat þessa aðila. Ég er ekki viss um að þeir vilji verða þeir einu sem ekki taka þátt í því að byggja hér upp.

Vegna þess að hv. þingmaður var að tala um „þótt fyrr hefði verið“ varðandi verkefni suður með sjó vil ég gleðja hann með að nýlega voru árituð drög að samkomulagi að fjárfestingarsamningi við Verne Holding sem er gagnaver (Forseti hringir.) sem mun byggjast þarna upp og er í byggingu núna suður með sjó. Það má því segja að það sé heilmikið að gerast fyrir utan önnur störf sem eru að skapast í hátækni og iðnaði.