138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

89. mál
[14:30]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður bendir á að hér er ESA búið að staðfesta þennan fjárfestingarsamning þannig að engar hindranir eru lengur í veginum. Hann er orðinn að veruleika og mun þá taka gildi í framhaldinu þegar málið hefur verið afgreitt héðan frá þinginu.

Ég var spurð beint að því hvaða gildi þessi lánveiting til Orkuveitu Reykjavíkur hefði. Hún hefur gríðarlega þýðingu. Hún hefur alveg gríðarlega þýðingu og ekki bara fyrir þetta verkefni heldur líka fyrir Ísland í heild sinni vegna þess að við erum búin að fá stimpil á það að hér séu hlutirnir komnir í lag eftir það áfall sem við urðum fyrir. Það er þó mikið verk að vinna. En menn eru tilbúnir að lána okkur þessar upphæðir til atvinnuuppbyggingar hér á landi og það hljóta að vera alveg gríðarlega góðar fréttir. Þetta þýðir að hægt verður að fara í virkjanir uppi á Hellisheiði og það skiptir máli fyrir þetta verkefni vegna þess að ekki má vera óvissa í orkuöfluninni til þess að hægt sé að fjármagna verkið sjálft, það hlýtur að gefa auga leið. Þannig að þetta hefur mikið að segja.

Núna skiptir líka máli að orkuöflunin hjá HS Orku komist á hreint sem allra fyrst svo að hægt sé að uppfylla þá samninga sem gerðir hafa verið, annars vegar við Orkuveitu Reykjavíkur og hins vegar við Hitaveitu Suðurnesja, þannig að verkefnið geti farið af stað.

Þetta þýðir auðvitað, virðulegi forseti, þessi lánveiting, að þeir áfangar — og Orkuveita Reykjavíkur er tilbúin með orkuna í fyrsta áfanga álversins og þetta hefur áhrif á 2. og 3. hluta þessa álvers, þ.e. þann hluta sem var Orkuveitu Reykjavíkur að útvega í verkefnið. Þannig að þetta eru gríðarlega góðar fréttir og við ættum að fagna þeim.