138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

89. mál
[14:35]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla að leyfa mér að taka þátt í þeim mikla fögnuði sem varð meðal þeirra hv. þingmanna og ráðherra sem síðast hafa hér talað um atvinnuuppbyggingu. Allar góðar óskir fylgja að sjálfsögðu þeim sem halda út í atvinnuuppbyggingu sem getur orðið til þess að hjálpa okkur að glæða efnahagslífið að nýju og koma hjólunum aftur af stað þannig að við getum náð okkur sem fyrst upp úr þeirri efnahagslegu lægð sem við erum nú í. Við erum, held ég, flest sem hér höfum talað, samstiga í þeim efnum.

Mér datt í hug þegar ég heyrði samtal hæstv. iðnaðarráðherra og hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar hugtak sem ég heyrði einu sinni úr norskri pólitík — ákveðinn hluti Verkamannaflokksins í Noregi var skilgreindur sem steinsteypusósíalistar. Ég held að við höfum einmitt heyrt óminn af slíkum sjónarmiðum, sjónarmiðum steinsteypusósíalista, héðan úr Samfylkingunni í þessari umræðu. Það er ánægjulegt af því að oft og tíðum (Utanrrh.: Er eitthvað að því?) — nei, ég er að lýsa fögnuði og taka þátt í fagnaðarlátunum með viðkomandi þingmönnum, hæstvirtur utanríkisráðherra. Ég tel að það sé ágætt og vel við hæfi í þessari umræðu að slík sjónarmið heyrist úr röðum Samfylkingarinnar því að oft hafa önnur sjónarmið verið háværari þar.

Ég vil láta þess getið, af því hæstv. utanríkisráðherra er hér viðstaddur, að hann átti þakkir skildar fyrir að koma þeim fjárfestingarsamningi í gegn sem samþykktur var síðasta vor, það var afar mikilvægt. Það var mikilvægt að ráðherra guggnaði ekki í því máli þó að ljóst væri að innan samstarfsflokks hans í ríkisstjórn hafi verið veruleg andstaða við málið eins og kom fram þegar málið kom til þingsins, þegar samstarfsflokkurinn lagðist einn og óklofinn gegn málinu sem flutt var sem stjórnarfrumvarp og hæstv. iðnaðarráðherra þáverandi, núverandi hæstv. utanríkisráðherra, flutti. Það ber að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir sinn þátt í því máli á þeim tíma.

Ég vil með sama hætti taka fram að ég ætla ekki að gagnrýna aðkomu núverandi hæstv. iðnaðarráðherra að uppbyggingu í Helguvík og þeim verkefnum sem henni tengjast. Ég er alveg sannfærður um að hæstv. iðnaðarráðherra hafi gert sitt besta í þeim efnum að því marki sem hæstv. iðnaðarráðherra hafði tök á þá. Þó að hæstv. iðnaðarráðherra hafi kannski ekki alveg náð að ná þeim árangri innan ríkisstjórnar Íslands að fá aðra ráðherra við það borð með sér í þennan leiðangur, svo að maður noti nú orðalag sem algengt er hér í þingsölum — sannfæringarkraftur hæstv. iðnaðarráðherra hefur t.d. ekki nægt til að koma í veg fyrir að hæstv. umhverfisráðherra hafi valdið miklum og óþörfum töfum á framgangi þeirra verkefna sem þarna er um að ræða, og eru eftir því sem ég skil best enn í stjórnsýslulegri meðferð og ferli. Nýr úrskurður Skipulagsstofnunar sem kom nú um daginn er kæranlegur og kærufrestur er fram í desember. Þá mun koma í ljós hvort kærur berast og hvort umhverfisráðherra tekur málið til meðferðar að nýju og þá hvernig.

Margt er því óvíst enn þá í þessum málum þó að hæstv. iðnaðarráðherra hafi áreiðanlega staðið sig vel í því sem að honum snýr að þessu leyti. En þetta er vandinn sem bæði við hér í þinginu og aðilar úti í þjóðfélaginu standa frammi fyrir varðandi aðkomu þessarar ríkisstjórnar að málefnum sem varða uppbyggingu atvinnulífsins, einkum hvað varðar orkufrekan iðnað og slíka uppbyggingu. Vandinn er auðvitað sá að ríkisstjórnin hefur ekki stjórnarstefnu. Hæstv. iðnaðarráðherra virðist hafa eina stefnu, hæstv. umhverfisráðherra virðist hafa einhverja aðra stefnu, hæstv. fjármálaráðherra ætlar að skattleggja allt sem hreyfist, þannig að það eru ansi margar stefnur uppi af hálfu hæstv. ríkisstjórnar í þessum málum. Það veldur að sjálfsögðu stjórnmálalegri óvissu sem bitnar á þeim verkefnum sem um ræðir. Það setur ugg að fjárfestum. Það setur ugg að framkvæmdaraðilum. Það setur ugg að hugsanlegum lánveitendum til slíkra verkefna þegar stjórnmálaleg óvissa er jafnmikil á þessu sviði og raun ber vitni.

Mér fannst hæstv. iðnaðarráðherra í andsvörum sínum hér áðan hafa tiltölulega litlar áhyggjur af framgangi þessa máls miðað við þær áhyggjur sem við heyrum frá heimamönnum á Suðurnesjum, frá þeim aðilum sem beinna hagsmuna eiga að gæta í sambandi við þessi verkefni. Við höfum heyrt í fulltrúum þeirra fyrirtækja sem þarna eiga í hlut. Við höfum heyrt raddir verkalýðsfélaga á Suðurnesjum. Við höfum heyrt raddir sveitarstjórnarmanna og allir hafa þeir miklu þyngri og meiri áhyggjur en hæstv. iðnaðarráðherra. Þannig að ég hygg að hæstv. iðnaðarráðherra, sem ég er ekki að gagnrýna, ég tek það skýrt fram, ætti að hlusta svolítið eftir því hvað heimamenn eru að segja um þetta, hvað fyrirtækin sem í hlut eiga eru að segja, hvað bæði framkvæmdaraðilar sjálfir og verktakar og aðrir eru að hugsa, hvaða áhyggjur verkafólk á Suðurnesjum hefur af framgangi þessa máls. Það eru verulegar áhyggjur sem hafa komið skýrt fram. Hæstv. iðnaðarráðherra ætti að spyrja hvort mögulegt sé að gera eitthvað, t.d. á vettvangi ríkisstjórnar Íslands, til þess að eyða þeirri óvissu sem veldur þeim áhyggjum sem hér um ræðir.

Hæstv. iðnaðarráðherra upplýsti hér, og ég játa það að ég hef ekki heyrt það áður, en auðvitað kann að vera að ég hafi misst af þeim fréttum sem þar var vísað í, að hugmynd væri uppi um að sérstakur orkuskattur, eða skattur á þá aðila sem nýta mikla orku í sínum rekstri, mundi ekki leggjast á nýja aðila, heldur bara þá sem eru að starfa fyrir. Ég verð að játa að þetta kemur mér verulega á óvart. Ég tek það fram að vel kann að vera að ég hafi misst af einu eða tveimur viðtölum við hæstv. fjármálaráðherra á undanförnum dögum, það kann að vera, en ég hef alla vega ekki heyrt þetta áður.

Ég er að velta fyrir mér, og hæstv. iðnaðarráðherra getur kannski svarað því hér á eftir — er það þá stefna ríkisstjórnarinnar, ef þetta yrði niðurstaðan, að leggja sérstakan orku- og auðlindaskatt á aðila sem eru hér starfandi í landinu en ekki á þá sem eru að koma nýir inn? Er það þá ætlun ríkisstjórnarinnar að mismuna með þeim hætti? Maður hlýtur að spyrja sig hvaða hugmynd sé í gangi að því leyti.

Maður hlýtur líka að spyrja sig hvort hæstv. ríkisstjórn hafi hugsað það, af því hér var kallað fram í að um væri að ræða fjárfestingarsamninga, hvernig fjárfestingarsamningar sem eru í gildi gagnvart aðilum sem fyrir eru í landinu — hvaða áhrif þeir kynnu að hafa á möguleika ríkisstjórnarinnar til þess að setja sérstakan skatt á þau fyrirtæki sem hér um ræðir? Ég velti því líka fyrir mér.

Ég heyrði einu sinni, hygg ég, og bið hv. þingmenn að leiðrétta mig ef ég er að fara rangt með, aðstoðarmann fjármálaráðherra, sem maður ætti kannski í þessum sölum að kalla hæstvirtan aðstoðarmann fjármálaráðherra, af því hann virðist vera svona alltumlykjandi í öllum helstu málum ríkisstjórnarinnar — þá veltir maður fyrir sér því sem hann sagði, sem var eitthvað á þá leið að jafnvel þó að við þyrftum að borga bætur til fyrirtækja sem hafa gildandi fjárfestingarsamninga þá væri samt þess virði að fara út í þessa skattheimtu. Ég velti fyrir mér hvort hæstv. iðnaðarráðherra hafi skoðað þetta mál og vilji tjá sig um það.

Ég ætla ekki að fara hér í löng ræðuhöld um þetta. Við erum komin nokkuð til hliðar við það efni sem hér liggur fyrir. Frumvarpið er einfalt og felur það í sér að Eftirlitsstofnun EFTA hefur gert tvær efnislegar athugasemdir við fjárfestingarsamninginn sem lögfestur var hér í vor. Þessar breytingar eru, eins og komið hefur fram, annars vegar að samningurinn gildir í 20 ár en ekki í 40 ár eins og upphaflega var ætlunin þegar hæstv. núverandi utanríkisráðherra gekk frá málinu í vor og hins vegar er ekki heimilt að veita tilhliðrun varðandi stimpilgjald eins og fram kemur í þessu máli. Þetta eru ekki endilega stór mál en þetta gefur hins vegar tilefni til þess að velta fyrir sér stöðu þessara mála almennt í höndum þessarar ríkisstjórnar.

Þrátt fyrir orð hæstv. iðnaðarráðherra áðan held ég að þeir aðilar sem bæði eru komnir af stað, búnir að stíga fyrstu skrefin, og eins þeir aðilar sem eru í startholunum að koma með fjárfestingu hér inn í efnahagslífið, sérstaklega á því sviði sem snýr að orkunýtingu, búi eins og sakir standa undir þessari ríkisstjórn við mikla óvissu um stjórnsýslu eins og úrskurður umhverfisráðherra um umhverfismat varðandi Helguvíkurverkefnið hefur sýnt. Það er óvissa varðandi skattalega þætti eins og þessar óljósu yfirlýsingar um orkuskattana gefa til kynna. Það er óvissa sem stöðugt vofir yfir þeim aðilum sem ætla að fara út í rekstur á þessu sviði að hér erum við með ríkisstjórn sem hefur mjög mismunandi sjónarmið hvað þetta varðar. Það veldur stjórnmálalegri óvissu sem aftur veldur því að Samfylkingin, eða alla vega steinsteypuhluti Samfylkingarinnar, rær í eina átt og samstarfsflokkurinn, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, rær í einhverja allt aðra átt. Og þetta kemur upp í hverju einasta máli sem varðar þessi málefni.

Ég held að það væri til mikilla bóta ef ríkisstjórnin gæti skýrt afstöðu sína í þessum efnum. Ef ríkisstjórnin gæti eytt þessum óvissuþáttum einum af öðrum og aðilar sem annaðhvort eru komnir af stað eða hafa í huga að fara af stað viti við hvaða umhverfi þeir eru að glíma þegar þeir fara í verkefni sín.

Almennt um nálgun hæstv. iðnaðarráðherra verð ég að segja að mér finnst hún, og reyndar margir aðrir talsmenn ríkisstjórnarinnar, alltaf vera í þeim vanda, oftast nær, kannski ekki í þessu máli þar sem ég tek fram að ég hef ekkert út á embættisfærslu hæstv. iðnaðarráðherra að setja — andrúmsloftið er yfirleitt þannig eða viðhorfið að ef menn eru með einn fugl í hendi en tvo í skógi þá sleppa þeir þeim sem er í hendi og eru stöðugt að horfa til þeirra tveggja sem eru í skógi en nást aldrei.