138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

89. mál
[14:51]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mikið óskaplega vona ég að hæstv. iðnaðarráðherra hafi rétt fyrir sér. Mér finnst bara svo margt í þeirri orðræðu sem höfð er uppi af hálfu ríkisstjórnarinnar benda til þess að menn vilji bara skoða „eitthvað annað“. Við heyrðum umræðu um verkefni á Bakka við Húsavík hér fyrr í dag, og var ekki akkúrat málið þar að menn vildu sleppa höndunum af því verkefni sem var fast í hendi til þess að sjá bara hvort það væri kannski eitthvað annað svona?

Það var einn aðili sem var tilbúinn að koma með — (Iðnrh.: Var? Eru þeir hættir við?) og er, sá aðili er ekki hættur við en hins vegar hefur þetta mál allt saman lent í bið og eins og greint var frá áðan og kom fram í umræðunni er ekkert sjálfgefið að þeir fjármunir sem einstök erlend fyrirtæki hafa hug á að setja í fjárfestingu hér á landi verði alltaf til staðar. Auðvitað er það þannig að þeir aðilar sem fjárfesta í atvinnurekstri eru með margt í spilunum og ef hlutirnir eru í einhverri óvissu og uppnámi á Íslandi fara peningarnir auðvitað eitthvert annað, það er ekkert óeðlilegt. Ég held því að full ástæða sé til þess að hafa áhyggjur af málinu fyrir norðan þó að við séum ekki að ræða það hér.

Hins vegar er kannski kjarni málsins sá að við búum enn við þá óvissu, þó að einungis séu sex eða sjö vikur eftir af þessu ári, að enginn hefur hugmynd um, ekki einu sinni ráðherrar í hæstv. ríkisstjórn, hvaða skattastefna verður tekin upp 1. janúar, á hvaða grunni fjárlögin verða byggð 1. janúar. Það hefur enginn hugmynd um það og óvissan um það hvað verður, ekki bara um orkuskattana heldur líka tekjuskatta og aðra skatta, (Forseti hringir.) er meiri í dag en þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram 1. október.