138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

89. mál
[15:16]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður sé búinn að gleyma því að við erum að ræða þingmál, við erum að ræða frumvarp sem er ekkert annað en staðfesting á lokapunkti ferilsins á fjárfestingarsamningi vegna Helguvíkur. Um hvað er þingmaðurinn að tala þegar hann kallar eftir einhverri skýrri sýn eða skýrri stefnu? Um hvað er þingmaðurinn að tala? Ég átta mig ekki á því. Við erum ekki hér í utandagskrárumræðu. Við erum að ræða þetta tiltekna mál. Það er kannski orðið svo langt síðan ég mælti fyrir því að hann er búinn að gleyma því en þannig er það. Það er staðreynd og ég held að það sem skiptir máli núna sé að við séum öll samstiga um þá uppbyggingu sem fram undan er. Ég er búin að segja það hér og ég get sagt það aftur að ég er sammála því að allri óvissu þarf að eyða varðandi skattamálin. Það er ekki bara gagnvart álverum eða þessu einstaka verkefni eða nýfjárfestingum, það er gagnvart atvinnulífinu öllu sem þarf að gera áætlanir fram í tímann, það er gagnvart heimilunum öllum sem þurfa að gera áætlanir fram í tímann. Það er gagnvart samfélaginu öllu. Það er enginn undanskilinn í því máli, því miður.

Ég held að menn ættu heldur að beina sjónum sínum að því hvernig við getum byggt landið upp aftur en að einblína stöðugt á það hvort einhver skattlagning komi hugsanlega á einn hluta samfélagsins. Því miður munu flestir í íslensku samfélagi og atvinnulífi finna fyrir því. Það er ekkert gleðiefni og það skiptir öllu máli að það mál sé unnið hratt og vel þannig að allri óvissu sé eytt gagnvart bæði nýfjárfestingum og líka atvinnulífinu sem starfandi er í dag og þarf ekki síður að gera áætlanir fram í tímann.