138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

89. mál
[15:18]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það kom mér svo sem ekkert á óvart að hæstv. iðnaðarráðherra áttaði sig ekkert á því hvað það þýðir þegar menn kalla eftir skýrri sýn. Það sem átt er við, frú forseti, í því máli er einfaldlega það sem ég lýsti áðan, að misvísandi skilaboð hafa komið frá ríkisstjórninni í þessu máli. Það skiptir máli.

Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að við erum að ræða hér ákveðinn fjárfestingarsamning en hann er hluti af stærra máli. Hann er hluti af því hvernig við nýtum orkulindir okkar og sérstaklega af því verkefni sem við ræðum hér um sem er Helguvík.

Annars fannst mér svolítið merkilegt að hlýða á andsvar hæstv. iðnaðarráðherra vegna þess að í svarinu kom fram sú skoðun að það væri nauðsynlegt að eyða óvissu um skattheimtu, það væri alveg nauðsynlegt fyrir heimilin í landinu, fyrir viðskiptalífið, fyrir fyrirtækin, að óvissu í skattamálum yrði eytt. Þetta er alveg hárrétt. En hvaðan kemur þessi óvissa, frú forseti? Hvernig varð þessi óvissa til? Hver ber ábyrgð á henni? Skyldi það ekki vera ríkisstjórn Íslands? Skyldu það ekki vera hæstv. ráðherrar í ríkisstjórn Íslands sem bera ábyrgð á því hver skattastefnan er? Skyldi það ekki vera hæstv. fjármálaráðherra sem ber nokkra ábyrgð á því að hafa lagt fram frumvarp til fjárlaga þar sem skattur var settur af stað á stóriðju og orkuframleiðslu sem var þannig að það var alveg augljóst að það gekk ekki upp en skapaði um leið alveg gríðarlega óvissu? (Gripið fram í: Þetta er allt AGS.) Ábyggilega er hægt að finna einhvern til að kenna um í málinu, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, Icesave-málið eða bara einhvern. En þetta er ábyrgðin, þetta er það sem menn eiga að vera að fást við, að búa ekki til óvissu heldur eyða óvissu til að hafa stefnu til að sýna að ríkisstjórnin hafi eina stefnu í málinu. Þess vegna var áhugavert að heyra hversu miklar áhyggjur hæstv. iðnaðarráðherra (Forseti hringir.) hefur af þessari óvissu sem hún sjálf, hæstv. ráðherra, hefur tekið þátt í að búa til. (Iðnrh.: Hefurðu frétt af bankahruninu?) Já, ég hef frétt af því.