138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

89. mál
[15:34]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna þeim áfanga sem verið er að ná í dag og vil taka undir þau orð sem fallið hafa fyrr í umræðunni um að þetta hefði mátt vera fyrr og betra ef þetta hefði verið fyrr. Það er mikið áhyggjuefni að í ríkisstjórninni virðist hægri höndin alls ekki vita á hverju er von frá þeirri vinstri, svo ósamstiga er hún ekki bara í þessum málaflokki heldur í mörgum málaflokkum og ekki síst þegar kemur að málefnum atvinnuveganna í landinu.

Það er ekki eins og orkufrekur iðnaður sé eini málaflokkurinn sem býr við þessar aðstæður. Sjávarútvegurinn, önnur grunnstoð atvinnu- og efnahagslífs okkar, býr við nákvæmlega sömu aðstæður. Þar er allt í uppnámi og hlutir að keyra í stóra stopp. Litlar fiskvinnslur og útgerðir úti um allt land eru komnar að fótum fram og fyrir séð að þær munu stoppa á næstu vikum og mánuðum. Það er mikið áhyggjuefni þegar staðan er þannig hvað varðar okkar helstu fjöregg, ég tala ekki um við þær aðstæður sem eru í samfélaginu í dag þegar við þurfum á öllum okkar vopnum að halda til að reisa íslenskt samfélag við.

Það er alveg sama hvaða innlendir og erlendir sérfræðingar hafa um það fjallað, nýting náttúruauðlinda skiptir öllu máli fyrir þessa þjóð í þessari stöðu og gefur okkur reyndar samkeppnisforskot á margar aðrar þjóðir til að ná endurreisninni duglega af stað. Hæstv. iðnaðarráðherra verður að sætta sig við það — hún hefur aðeins gert athugasemdir við það í umræðunni — að umræðan fari kannski svolítið víðar um þessi mál við þær aðstæður sem ríkja þegar við þingmenn fáum tækifæri til að ræða þennan málaflokk.

Úr ranni hæstv. ríkisstjórnar hafa heyrst þær raddir að við séum að verða búin með alla orku í landinu. Það er einn af nýju frösunum sem er haldið fram og kom m.a. fram á umhverfisþingi sem nýliðið er — að við værum að eyða síðustu orkuöflunartækifærum okkar í þá stóriðju sem er í pípunum. Þetta er ein myndin af þeim rangfærslum sem berast frá ríkisstjórninni og mörgum þingmönnum úr ríkisstjórnarflokkunum. Það er einfaldlega þannig að í dag erum við búin að nýta um 20% af efnahagslega hagkvæmum virkjunarkostum í vatnsafli í landinu, um 20%. Við erum sennilega nær 30% þegar kemur að jarðhitaorkunni. Það sér það því hver sem vill skoða þetta í þessu samhengi að við erum rétt að stíga okkar fyrstu skref í því að nýta þá möguleika sem þjóðin á á þessu sviði. Ég vil taka fram að mögulegar djúpboranir eru ekki teknar inn í myndina og sú orkuaukning sem fæst við þá niðurstöðu ef hún verður jákvæð eins og væntingar standa til.

Ef við berum okkur saman við aðrar þjóðir í þessu sambandi þá eru þær þjóðir í Evrópu sem við gjarnan berum okkar saman við búnar að nýta 70–90% af sínum efnahagslega hagkvæmu orkugjöfum í vatnsafli og jarðvarma, sérstaklega vatnsafli. Við eigum því mikið í land og engin þjóð hefur efni á því að nýta ekki náttúruauðlindir sínar. Við eigum sjóinn, fiskimiðin, og við eigum orkuna í iðrum jarðar og í vatnsföllunum. Við eigum ekki olíu, alla vega ekki enn sem komið er. Við eigum ekki málma í jörðu eða kolefni þannig að við verðum að nýta þessa þætti.

Það er alveg ljóst að aðgerðir núverandi ríkisstjórnar hafa skert verulega samkeppnisstöðu þessarar þjóðar, samkeppnisstöðu sem var glögg og skýr í hugum þeirra sem vilja setja upp orkufrekan iðnað. Þau alþjóðlegu stóru fyrirtæki sem eru að leita út fyrir landsteina sína eru að leita að tækifærum í heiminum til að setja niður verksmiðju fyrir slíka framleiðslu. Samkeppnisforskot okkar fólst ekki eingöngu í því að vera með umhverfisvæna orkugjafa, endurnýjanlega orkugjafa, hagkvæma, heldur ekki síður í þeim stöðugleika sem hér hefur ríkt á þessum vettvangi. Við erum með vel menntað þjóðfélag og hér hefur ríkt pólitískur stöðugleiki. Hér hefur stefna stjórnvalda verið skýr. Ég vil í því sambandi rifja upp þá erfiðleika sem við Íslendingar höfum átt í á undanförnum árum með að fá öflug fyrirtæki til liðs við okkur, fá öflug fyrirtæki til að fjárfesta í atvinnulífinu, fá öflug fyrirtæki til að koma og nýta auðlindir okkar með okkur til að afla verðmæta, til að búa til útflutningsverðmæti og auka hagvöxt og atvinnu í landinu. Skemmst er að minnast þess hvernig þetta gekk á Austurlandi áður en Alcoa kom til og gerði við okkur samning og það hefur gengið eins vel og það hefur gengið. Áður hafði stórfyrirtækið Norsk Hydro gengið okkur úr greipum eða misst áhugann.

Hæstv. iðnaðarráðherra talaði hér áðan eins og hún hefði fundið upp hjólið í þessum efnum. Hún hefði sett á laggirnar nefnd, núna norður í Þingeyjarsýslu, sem ætti að fara að leita út fyrir landsteinana, leita að tækifærum. Það er ákveðinn hroki í þessu yfirbragði hæstv. iðnaðarráðherra, sá sami hroki sem endurspeglaðist í svörum hennar til garðyrkjubænda fyrr í vikunni, alveg nákvæmlega sá sami. Það er ekki eins og ekki sé búið að vera að reyna í Þingeyjarsýslu að finna einhver tækifæri og byggja þar upp atvinnu. Það hefur verið reynt í mörg ár (Gripið fram í: Með ríkinu?) — með ríkinu meðal annars já, meðal annars með ríkinu. Ríkið hefur lagt sitt af mörkum í þeim efnum, meðal annars með undirritun viljayfirlýsingar við Alcoa á sínum tíma sem þessi ríkisstjórn hendir síðan út af borðinu, hæstv. ráðherra, og setur öll áform þess fyrirtækis um frekari fjárfestingar í atvinnulífi á Íslandi, og þá sérstaklega í Þingeyjarsýslum, í uppnám. Það er nákvæmlega staðan. Menn haga sér stundum eins og við séum ein í heiminum og ríkisstjórnin virðist stundum hegða sér eins og Palli sem var einn í heiminum. Þetta er einfaldlega ekki þannig.

Ég er nýlega kominn frá landi í Suður-Ameríku þar sem verið er að reisa vatnsaflsstöðvar upp á 2.500 megavött. Þar voru öll helstu álfyrirtæki heimsins að leita landa. Það sem við höfum haft umfram þessar þjóðir á undanförnum árum og áratugum er sá stöðugleiki sem ríkt hefur í hinu pólitíska umhverfi, sú stefnufesta sem verið hefur til staðar þegar kemur að þessum málaflokki. Fyrirtæki hafa getað treyst því að þau koma hingað, þau gera samninga við þetta land, hér er pólitískur stöðugleiki og þetta hefur gefið okkur forskot. Það er dýrara að reisa vatnsaflsvirkjanir hér en í þessu landi í Suður-Ameríku. Hér er dýrara vinnuafl til að framleiða afurðir þessara fyrirtækja en þar suður frá. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar falla að því að eyða þessu samkeppnisforskoti okkar, stúta því, og setja okkur miklu aftar í röðina sem mögulegan valkost fyrir atvinnuuppbyggingu í framtíðinni, í samvinnu við fyrirtæki sem þurfa á mikilli orku að halda, þeirri náttúruauðlind sem við eigum til að endurreisa íslenskt samfélag.

Það er kominn tími til að við förum að snúa við blaðinu, virðulegi forseti. Það verður að fara að stefna í aðra átt í þessum málum og það þýðir ekkert að segja úr ræðustól Alþingis, eins og hæstv. iðnaðarráðherra gerði áðan, að nýfjárfestingar verði undanskildar. Ný fjárfesting er bara ný á meðan hún er ný. Hvenær líður sá tími að fjárfestingin er ný? Er álverið við Reyðarfjörð nýfjárfesting eða ekki? Er það undanskilið þeim orku- og umhverfissköttum sem ríkisstjórnin ætlar að leggja á þennan iðnað? Nei. Þessir aðilar eru að horfa til lengri tíma, virðulegi forseti, en einhverra mánaða. Þeir eru að horfa til ára og er þá skemmst að minnast þess að álverið í Straumsvík hefur verið hér í 40 ár, hefur fyrir löngu greitt upp stórvirkjanirnar í Þjórsá, löngu greitt þær upp. Við eigum þær skuldlausar í dag og þær mala gull. Þær mala gull fyrir þetta þjóðarbú.

Það er mikið í húfi, virðulegi forseti, þegar kemur að þessum málum. Við getum ekki, eins og ég sagði áðan, búið við það að hér fari að skapast óstöðugleiki. Við verðum að hafa stefnufestu. Við verðum að vera fólk orða okkar þegar kemur að samstarfi við aðra aðila, alveg sérstaklega á þessum vettvangi. Það er ljóst að Alcoa er að hugsa sinn gang. Þeir eru farnir að líta miklu víðar. Þeir eru farnir að gera sér grein fyrir því að hér ríkir engin samstaða um frekara samstarf við þá og þeir eru þess vegna á förum með þessar verkefnishugmyndir sínar og fagna nú einhverjir á meðan aðrir koma til með að sakna þess. Það sama er að gerast hjá Ísal, alveg það sama, nákvæmlega það sama. Ég held að það hafi verið daginn fyrir tilkynningu ríkisstjórnarinnar, um aukna orku- og auðlindaskatta, að stjórn Ísals hafi ákveðið fjárheimildir til að fara í skautastækkun í Straumsvík. Það er allt sett á ís núna.

Nú er hægt að halda um þetta alveg ótrúlega langa ræðu og við notum tækifærið, þó að hæstv. ráðherra geri við það athugasemdir að við förum um víðan völl, þegar verið er að ræða það mál sem er hér til umræðu, en það er svo nátengt þessu að við verðum að nota það tækifæri til að benda á þá ógn sem vofir yfir. Eða telja menn að þessar aðgerðir sem við höfum rætt um af hálfu núverandi umhverfisráðherra, af hálfu núverandi ríkisstjórnar, leiði til þess að auðveldara verði að fjármagna framkvæmdirnar í Helguvík? Þeir aðilar sem lána fé til slíkra framkvæmda líta ekki síst á stöðugleikann og þá stefnufestu sem er í þeim löndum sem um ræðir. Þá kem ég aftur að því að þar höfðum við þetta samkeppnisforskot sem við höfum ekki lengur og er að hverfa frá okkur og setur okkur miklu aftar í röðina sem valkost fyrir þau fyrirtæki sem eru að horfa til framtíðaruppbyggingar sinnar starfsemi. Við þetta verður ekki búið, virðulegi forseti.

Þetta er að mínu mati alvarlegasta málið sem þetta þing stendur frammi fyrir í dag, það er atvinnustefna ríkisstjórnarinnar eða öllu frekar atvinnuleysisstefna hennar. Ríkisstjórnin hefur sýnt það að vegna ósamstöðu sinnar, m.a. í þessum geira, er hún ekki fær um að ná þessum málum fram. Ég efast ekki um einlægni og áhuga margra þingmanna ríkisstjórnarflokkanna sem vilja feta þá leið að byggja upp með nýtingu á náttúruauðlindum landsins orkufrekan iðnað sem síðan leiðir af sér allan þann smáiðnað og alla þá þjónustu sem því fylgir og nýsköpun í atvinnulífinu. Ég efast ekki um heilindi þessara þingmanna. Afl þeirra innan ríkisstjórnarinnar og innan ríkisstjórnarflokkanna er of lítið, virðulegi forseti. Þeir ná ekki í gegn með málflutning sinn. Þeir ná ekki í gegn með áherslur sínar. Því ítreka ég það sem ég hef áður sagt að það verður, með hagsmuni þjóðarinnar í huga, að setja aðra flokka, öðruvísi samsteypu, að þessu ríkisstjórnarborði.