138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

89. mál
[15:49]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er synd og skömm að álver á Bakka hafi ekki risið meðan flokkur hv. þingmanns var í ríkisstjórn þegar hann hafði augljóslega, eins og hv. þingmaður lýsti hér, til þess alla burði. Staðreyndin er hins vegar sú að magnið af orkunni fyrir norðan hefur ekki legið fyrir. Til að hægt sé að taka ákvörðun þarf magnið að liggja fyrir varðandi nýtingu, sérstaklega hjá stórum kaupanda eins og Alcoa. Annað getur ekki verið góður „bisness“ nema menn viti nákvæmlega hvað þeir fá af þessu svæði.

Um það snýst þessi viljayfirlýsing fyrir norðan og það undrar mig hvernig hv. þingmaður talar um hana vegna þess að þessi viljayfirlýsing er alveg gríðarlega mikilvæg. Við erum að skuldbinda okkur til að taka þátt í að leysa sveitarfélögin úr þeim erfiðleikum sem þau eru komin í vegna orkuöflunarsvæðisins með því að byggja öflugt félag og finna nýtt fjármagn þangað inn, hvort sem það er frá fagfjárfestum eða lífeyrissjóðum. Þetta er mjög mikilvæg skuldbinding.

Ástæðan fyrir því að ég kem hingað upp er sú að hv. þingmaður fullyrðir hér aftur og aftur að Alcoa sé á förum vegna þess að þessi viljayfirlýsing hafi ekki verið endurnýjuð. Ég vil spyrja hann nánar út í hvað hann hefur fyrir sér í því, vegna þess að ég hef ekki heyrt af því að þeir séu að ganga út úr umhverfismatinu t.d., ég hef ekki fengið upplýsingar um það. Ég verð að spyrja hv. þingmann hvort hann sé í raun og veru að segja að Alcoa geti ekki byggt á þessari viljayfirlýsingu þar sem við skuldbindum okkur til að vera tilbúin með orkuöflunarhlutann og rannsóknir á því hversu mikið magn orku er fyrir norðan næsta haust. Er hv. þingmaður að segja að Alcoa geti ekki verið tilbúið að taka ákvörðun um hvort það kaupir þessa orku eður ei strax næsta haust?