138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

89. mál
[15:51]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er dálítið undarlegt að ráðherra skuli þurfa að spyrja mig að því hvort Alcoa sé tilbúið að kaupa orku (Gripið fram í.) sem verður mögulega staðfest næsta haust. Þetta er eitthvað sem hæstv. ráðherra ætti að vera kunnugt um, eða hefur hún ekki rætt við það fyrirtæki sem um ræðir? Hversu marga fundi hefur hún átt með þessu fyrirtæki? (Gripið fram í: Færðu rök fyrir máli þínu.) Jafnmarga og (Viðskrh.: Svaraðu.) við garðyrkjubændur? (Félmrh.: Svaraðu.) Ég gef mér að þegar þessi ríkisstjórn neitar að framlengja viljayfirlýsingu við Alcoa varðandi álver á Bakka hætti þeir ekki við sín áform um að reisa annað álver, það liggur alveg fyrir. Og í hverju felst það þegar ríkisstjórnin neitar að framlengja þá viljayfirlýsingu og það samstarf ríkisstjórnar Íslands sem var við fyrirtækið á þessum vettvangi og hvað varð um þann skýra vilja sem var til að starfa með þeim til framtíðar að frekari uppbyggingu? Þegar núverandi hæstv. ríkisstjórn rýfur það samkomulag og neitar að endurnýja viljayfirlýsinguna leita þeir auðvitað eitthvert annað. Ef hæstv. ráðherra getur ekki sagt sér þetta sjálf er hún einfaldlega ekki starfi sínu vaxin, virðulegi forseti, frekar en svo margir í þessari ríkisstjórn. Og þegar hæstv. ráðherra segir að hún hafi með undirritun sinni (Gripið fram í.) núna leyst sveitarfélögin úr þeim vanda sem þau voru komin í vegna fjárfestingar sinna á svæðinu skal hún líta betur til þess hver skapaði þennan vanda, hverju hann er um að kenna. (Gripið fram í.) Nei, ætli það sé ekki hægt að leita í raðir Samfylkingarinnar í þeim efnum og úrskurðar hæstv. fyrrverandi umhverfisráðherra sem ákvað að setja af stað heildstætt mat þar þrátt fyrir öflug mótmæli heimamanna og tilkynningar og yfirlýsingar um að það mundi setja áform þeirra í fjárhagslegt ójafnvægi. Sveitarfélögin og aðrir aðilar væru búin að leggja allt of mikið undir (Forseti hringir.) til að þau gætu staðið undir þeim töfum sem sú ákvörðun mundi hafa í för með sér.