138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

89. mál
[15:55]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Öðruvísi mér áður brá. Nú eru það við sjálfstæðismenn sem tölum orkufrekan iðnað úr landinu. (Gripið fram í.) Eru það við sjálfstæðismenn sem hrekjum á brott fyrirtæki sem eru áhugasöm um að byggja upp atvinnufyrirtæki til framtíðar (Gripið fram í.) og efla útflutningsverðmæti og hagvöxt í þessu landi? (Iðnrh.: Þú sagðir …) Ég held að menn ættu að fara að vara sig á því hvernig þeir tala úr ræðustól Alþingis.

Þegar ég tala um það hvernig komið er fyrir þeim fyrirtækjum og öðru sem þessi ríkisstjórn er búin að setja í uppnám vitna ég auðvitað til þess að það var í gildi samkomulag sem hæstv. ráðherra vill nú gera lítið úr. Það var viljayfirlýsing og samkomulag við Alcoa og sveitarfélögin á svæðinu (Gripið fram í.) um frekari uppbyggingu. Það var komið að því að endurnýja það samkomulag. Ef hæstv. ráðherra gerir sér ekki grein fyrir því að aðgerðir þessarar ríkisstjórnar eru til þess fallnar að hrekja þetta fyrirtæki úr landi með þær hugmyndir sem það vildi hrinda í framkvæmd, eða stuðla að því að það færi að skoða aðra möguleika þá segi ég enn og aftur: Ríkisstjórnin er þá ekki starfi sínu vaxin vegna þess að það liggur í augum uppi að þegar ríkisstjórn Íslands neitar að undirrita viljayfirlýsingu við fyrirtækið um áframhaldandi samstarf að uppbyggingu og álveri á Bakka, felast í því mjög ákveðin skilaboð. Það er ekki hægt að ríkisstjórnin skorist undan því að bjarga sveitarfélögum, að fara í mikla atvinnuuppbyggingu á svæðinu og nýta til þess þá orkugjafa sem þar eru. Þetta er froða, virðulegi forseti, þetta er ekkert annað en innihaldslaus froða. Svona eru margir þingmenn búnir að tala í gegnum árin og hverju hefur það skilað okkur? Hverju skilaði það okkur á Vestfjörðum þegar átti að gera þá að paradís þar sem engin stóriðja væri? Hverju hefur það skilað? Það eru nokkur ár síðan stjórnmálaflokkur á þinginu (Forseti hringir.) ætlaði að gera það og sérstaklega vinstri menn, bæði í Samfylkingunni og hjá Vinstri grænum. Það hefur nákvæmlega engu skilað. Það er þetta sem fólkið, (Forseti hringir.) sem býr á þessum svæðum, veit, það treystir þessu ekki og fyrirtækin þaðan af síður.