138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

89. mál
[16:00]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sjálfstæðisflokkurinn og undirritaður hefur tröllatrú á innlendum fjárfestum og einkaframtaki á Íslandi og er tilbúinn að styðja það fram í rauðan dauðann. En gagnvart þeim verkefnum sem hér eru til umræðu eru þau svo stór að það er ekki hagkvæmt fyrir íslenskt samfélag að ætla sér að standa í þeim eitt og sér. Ég hvet hv. þingmann til að kynna sér nýlega skýrslu sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vann fyrir iðnaðarráðuneytið og kom út í sumar um áhrif stóriðju á Íslandi og álver. Þar kemur alveg sérstaklega fram að það sé nauðsynlegt fyrir okkur að horfa til þess að fá það áhættufjármagn sem felst í þessum fjárfestingum inn í landið erlendis frá. Þegar talað er um dýr störf í stóriðju, að hvert starf í álveri kosti 100 eða 200 milljónir, eða hvað það á að kosta, skulum við ekki gleyma því að þeir peningar koma erlendis frá sem fjárfesting í landinu.

Sjáið þið fyrir ykkur Ísland fara í sambærilegar fjárfestingar erlendis? Þetta eru erlendir peningar sem streyma inn í landið til þess að fjárfesta. (Gripið fram í.) Síðan framleiða þessi störf afurðir sem efla hér hagvöxt og auka á útflutningsverðmæti okkar. Þetta hefur því ekkert með það að gera.

Framsækna ríkisstjórnin sem hv. þingmaður talaði um og er hér með að gera það að yfirskrift að nýta náttúruauðlindir í grænum iðnaði — ég bið hv. þingmann að tala í lausnum. Ég bið hv. þingmann að gera þjóð og þingi þann greiða einu sinni af hálfu þessara flokka að koma nú með einhver dæmi um það sem þar á að vera vegna þess að eins og ég sagði áðan í ræðu minni er þetta ekkert nýtt undir sólinni. Það er ekki eins og það sé ekki búið að reyna á undanförnum árum að laða til samstarfs við okkur aðila. (Forseti hringir.) Þetta er ekki eins einfalt og það hljómar.