138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

89. mál
[16:02]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður þarf ekki að óttast lausnaleysi undirritaðrar og þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr. (JónG: Lát heyra.) Það væri kannski frekar að hv. þingmaður ætti að líta í eigin barm og óttast þá fortíðarhyggju sem hann endurvarpar hér í þingsal.

Varðandi það, frú forseti, hvet ég hv. þingmann til að koma á sprotaþing á morgun og sjá hvað þar er í bígerð. Akkúrat nú um stundir er fyrirtækið CCP að auglýsa 150 störf. Það er vissulega fyrirtæki sem nýtir ekki mikla orku en hingað vilja koma gagnaver. Það er fjöldinn allur af iðnaði sem er umhverfisvænn iðnaður sem hægt er að lokka hingað til lands.

En ef við ætlum að vera með þá stefnu að vera með mengandi stóriðju sem uppistöðu í íslenskum atvinnuvegi þá er það ekki áhugavert fyrir fyrirtæki sem vilja markaðssetja sig og endurspegla umhverfisvænar áherslur. Þegar hv. þingmaður talar um það sem lausn að byggja hér fjöldann allan af álverum er hann að líta til skammtímafjárfestingaráhrifa og það er verið að fórna miklum hagsmunum með því að líta til skammtímaáhrifa af slíkum fjárfestingum. Þetta eru vissulega, og það er rangt að tala gegn því, þetta eru vissulega mjög dýr störf og við getum með miklu betri hætti aflað hér starfa. Það er mjög alvarlegt atvinnuleysi hér í landi og ég geri ekki lítið úr því, frú forseti, að það er fjöldi fólks sem við þurfum að tryggja að geti átt von á góðri atvinnu á komandi árum. Það gerum við með því að mennta þjóðina betur og með því að byggja upp (Forseti hringir.) til langs tíma arðbærar atvinnugreinar sem skila arði inn í landið og koma okkur á kortið sem grænu hagkerfi.