138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

vörumerki.

46. mál
[16:17]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að eftir þessa ræðu sé öllum þingheimi það ljóst að hv. þm. Magnús Orri Schram vill inn í Evrópusambandið sem allra fyrst. Hins vegar er það þannig að þó að við höfum ákveðið að það þyrfti að fara í þessa breytingu með meiri hlutanum þá er það okkur ekki ljúft. Við erum ekki sátt við það innst inni að nauðsynlegt sé að fara í gegnum þetta en þetta er hins vegar hluti af því samkomulagi sem við skrifuðum undir fyrir fjöldamörgum árum um að gerast aðilar að EES-samningnum og það er því ýmislegt sem við þurfum að taka á okkur sem við erum hins vegar ekki sátt við. En ég fagna því að á næstu mánuðum munum við væntanlega ræða meira um Evrópusambandið þar sem ég get komið sjónarmiðum mínum skýrar fram gagnvart aðild að sambandinu sem má segja að séu væntanlega á hinum pólnum við hv. þm. Magnús Orra Schram.

Ég geri svo sem ráð fyrir að næsti ræðumaður, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, muni koma mjög skýrt fram með sín sjónarmið varðandi aðild að ESB þannig að þetta verður mjög áhugaverð umræða áfram.