138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

vörumerki.

46. mál
[16:52]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að vandamálið við EES-samninginn í dag stafi að einhverju leyti af því hvernig hann var kynntur og seldur almenningi fyrir 15 árum. Þá töluðu margir um að þetta væri samningur sem fæli það í sér að Íslendingar fengju allt og gæfu ekkert eftir, sem sagt: Allt fyrir ekkert.

Varðandi þá gagnrýni að við þurfum að vara okkur á tilskipunum ESB út af innstæðutryggingarsjóðnum þá hef ég nýlega fengið þær upplýsingar að matsfyrirtækið Fitch álítur t.d. ekki, og hefur ekki álitið fram til þessa, að ríkisábyrgð sé á innstæðutryggingarsjóðum aðildarlanda EES-samningsins. Það er ekki fyrr en við samþykkjum ríkisábyrgðina sem þeir taka innstæðutryggingarsjóðinn inn í lánshæfismat sitt.