138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

vörumerki.

46. mál
[16:54]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get alveg verið sammála hv. þingmanni í því að þegar formaður Alþýðuflokksins fór mikinn — ég held að hann hafi verið sá stjórnmálamaður sem notaði mest og nær eingöngu, og ég held að það hafi frekar verið bundið við þann flokk en aðra, orðalagið allt fyrir ekki neitt varðandi EES-samninginn. En það er eitthvað sem eðli málsins samkvæmt stenst ekki skoðun.

Ég vek líka athygli á því, af því að allir eru nú búnir að gleyma hvernig umræðan var fyrir nokkrum kosningum síðan, að þegar menn voru að ræða um hve vel gengi í efnahagsmálum þá talaði Samfylkingin ávallt um að það væri allt Evrópska efnahagssvæðinu að þakka. Það var ekkert annað á bak við það. Allt það sem var gott var Evrópska efnahagssvæðinu að þakka.

Varðandi innstæðutryggingarsjóðinn og Icesave, sem við höfum kannski einhvern tímann tækifæri til að ræða með öðrum hætti, þá er ekki nokkur einasti vafi á því að við hefðum ekki verið að ræða það neitt til eða frá, við hefðum ekki neitt sjónarmið á því hvorki til né frá, nema vegna þess að við samþykktum tilskipunina.