138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

vörumerki.

46. mál
[16:56]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo ég sé alveg nákvæmur þá sagði hv. þm. Magnús Orri Schram að hann væri sammála því sem kæmi fram í nefndaráliti minni hlutans og þar kom fram að þetta væri mjög slæmt. Varðandi samninginn við Evrópska efnahagssvæðið þá snýst málið í mínum huga hins vegar ekki um það hvort menn séu sammála honum í heild sinni eða ekki. Það snýst um það hvernig við praktíserum utanríkispólitík okkar. Ég tel að við höfum gert gríðarlega mikil mistök á undanförnum áratugum þar. Ég held að við höfum verið algerlega týnd.

Ætli hámark vitleysunnar hafi ekki verið það þegar við ákváðum að verða aðilar að öryggisráði Sameinuðu þjóðanna? Ég á smákort frá utanríkisþjónustunni um það hverjir ætli að greiða atkvæði með því að fara í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna og ég ætla að eiga það áfram. Það voru nokkurn veginn allir þannig að það var alveg óskiljanlegt þegar síðan var talið upp úr kjörkössunum. Kannski er það bara þannig að við erum ung þjóð — við erum ekki með nema 60 ára gamla utanríkisþjónustu og það er ekkert gamalt, það er ekki mikil reynsla. Við höfum verið að dreifa okkur út um allan heim í stað þess að einbeita okkur að því sem mér finnst aðrar þjóðir gera betur, að gæta hagsmuna okkar.

Við fundum fyrir því þegar efnahagshrunið varð að við vorum búin að glata þeim tengslum sem við ættum að hafa og höfum haft við stórveldi í heiminum, Bandaríkin. Menn hafa engan veginn sinnt þeim hagsmunum sem þar voru og við vorum ekki með þær tengingar sem við þurftum inn í Evrópu og inn í Evrópusambandið því að þetta eru bara stórar og litlar þjóðir sem menn þurfa að vera í tengslum við ef þeir ætla að ota sínum tota og gæta sinna hagsmuna. Og ef við gætum ekki hagsmuna Íslendinga þá gerir það enginn. Það mun engin önnur þjóð gera það fyrir okkur. Ég get alveg lofað ykkur því, virðulegi forseti. Í þessu máli, sem er þvert gegn hagsmunum okkar Íslendinga, er ég að hvetja menn til að draga andann djúpt og fara yfir það hvernig við getum gætt hagsmuna okkar betur í staðinn fyrir að vera með einhvers konar kranalagasetningu.