138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

vörumerki.

46. mál
[16:58]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Magnús Orri Schram) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að mörgu leyti jákvætt að við séum að taka þessa umræðu um Evrópusambandið vegna þess að því meira sem við ræðum sambandið því lengra komumst við í þessari orðræðu sem er mikilvægt fyrir okkur öll. Að því leyti er gott að við ræðum þetta.

Mín nálgun er þessi: Hvaða áhrif ætlum við að hafa á þann markað sem 75% af okkar viðskiptum er við? Ætlum við að hafa raunáhrif eða ætlum við að vera þiggjendur? 75% af utanríkisviðskiptum Íslendinga eru við Evrópusambandið, 5% við Norður-Ameríku, 75% versus 5%. Þess vegna höfum við mikilla hagsmuna að gæta að lög og reglugerðir innan Evrópusambandsins séu með þeim hætti að okkur líki og um það snýst þessi umræða.