138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

vörumerki.

46. mál
[17:03]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra efnahags- og viðskiptamála fyrir ræðuna, hún sagði í rauninni allt sem segja þurfti. Við verðum að gera þetta. Það eru svo miklir hagsmunir af því að vera í Evrópska efnahagssvæðinu að við skulum bara láta þetta valta yfir okkur. Og af sínu alkunna lítillæti fór hann yfir það hvað væri best fyrir þróunarlöndin.

Hæstv. ráðherra hefur ekkert gert í því að koma í veg fyrir að við þurfum að taka þetta mál upp, ekki neitt. Hann lítur svo á að þetta sé bara böggull sem fylgir skammrifi, væntanlega eins og menn hafa litið á þegar menn gengu frá innstæðutryggingakerfinu. Ég efast ekki um að ef hæstv. ráðherra hefði verið ráðherra á þeim tíma þá hefði hann farið með þessa sömu ræðu. Ég veit að vísu ekki hvort hann hefði getað tengt tolla inn í það, það var að vísu enginn að tengja tolla inn í það, það var að vísu enginn að tengja tolla inn í þetta mál áðan. Ég var hins vegar að fara yfir málið í stærra samhengi og hæstv. ráðherra hefði betur hlustað.

Það er enginn nema þá einn aðili sem hefur komið og sagt að það séu hagsmunir okkar að samþykkja þetta mál. Það er að vísu ekki samþykki — að málið er ekki gott, hæstv. ráðherra hefði ekki þorað að fara þangað. En það eru svo miklir hagsmunir af því að vera í Evrópska efnahagssvæðinu að við skulum láta þetta yfir okkur ganga eins og menn hafa látið mýmörg mál yfir sig ganga með afleiðingum sem við þekkjum öll. Ef það væri einhver bragur á þessu hjá hæstv. ráðherra mundi hann beita sér fyrir því, sem er hægt og ég veit það — ráðherrar geta beitt sér fyrir því að koma málum í gegn þó svo kerfið sé til staðar eins og það er núna. Lyfjamálin eru gott dæmi þar um og það tengist m.a. þessu máli.