138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

vörumerki.

46. mál
[17:05]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til að varpa ljósi á þá hagsmuni sem hér takast á er rétt að rifja upp hvernig staðan var á Íslandi áður en við urðum hluti af hinu Evrópska efnahagssvæði. Þá gilti svokölluð landstæming í vörumerkjarétti. Hvaða afleiðingar hafði það? Jú, það hafði m.a. þær afleiðingar að hér var mjög stór og fjölmenn stétt heildsala sem hafði einkaumboð til sölu á vörum sínum eða þjónustu á Íslandi með gríðarlegum tilkostnaði. Með EES-samningnum og þeirri svæðisbundnu tæmingu sem kom þá losnuðum við að mestu við þetta. Heildsölum snarfækkaði og heildsölurnar stækkuðu og íslenskir smásalar og þar með neytendur höfðu aðgang að mörkuðum á Evrópska efnahagssvæðinu, þar á meðal gátu þeir sótt vörur til heildsala hvort sem það var í Portúgal eða Danmörku eða hvar sem þeim þótti það hagfelldast í stað þess að þurfa að búa við innlenda einokun.