138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

vörumerki.

46. mál
[17:06]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hélt að hæstv. ráðherra hefði verið viðstaddur umræðuna en ég er ekki viss lengur. Hann er eini maðurinn sem hefur komið hér og talað um landstæmingu. Hefur einhver hér, virðulegi forseti, minnst á að gott væri að fá landstæmingu? Það er víst mikið að gera hjá hæstv. ráðherra, hann er eitthvað utan við sig. En bara til upplýsingar, það var enginn að ræða það, það er ekki þannig. Við vorum að tala um alþjóðlega tæmingu versus svæðisbundna, um það snýst málið. Ef hæstv. ráðherra les sitt eigið frumvarp þá er það það sem þetta mál gengur út á. Og ég vil biðja hæstv. ráðherra að ræða málið eins og það liggur fyrir en fagna því að hann taki þátt í umræðunni og vona að hann geri meira af því. Ég skal svo sannarlega eiga orðaskipti við hann en landstæming er eitthvað sem á sér mér vitanlega enga fylgismenn hér inni. Kannski finnur hæstv. ráðherra einhvern slíkan en ekki í þessari umræðu.