138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

vörumerki.

46. mál
[17:08]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Þetta er um margt sérkennilegt mál. Í fyrsta lagi tengist það EES-samningnum og tilskipun þar að lútandi. Síðan eru orð sem ég held að séu venjulegu fólki frekar óskiljanleg, svæðistæming, alþjóðatæming, landstæming, og skipta fólkið í þessu landi litlu sem engu máli. En það sem getur skipt fólkið í þessu landi máli er, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, að fyrir liggur dómur og dómurinn felur það í sér, eftir því sem sagt er, að samkeppni getur minnkað á Íslandi og vöruverð til neytenda hækkað. Þetta skiptir máli fyrir okkur, fólkið í landinu, en ekki hin orðin. Það skiptir líka máli í þessu samhengi: Höfum við eitthvert val? Getum við á löggjafarþinginu gert eitthvað annað en samþykkja þetta einfalda frumvarp eins og um er rætt, frumvarp til breytinga á lögum nr. 45/1997, um vörumerki, með síðari breytingum?

Ég er klár á því, frú forseti, að orðið vörumerki hringdi engum bjöllum í hugum þjóðarinnar um að það kallaði á minni samkeppni og hækkun vöruverðs. Það er algerlega ljóst að svo hefur ekki verið. Því spyr ég og því vil ég velta því upp: Er möguleiki fyrir þingið að bregðast við með einhverjum öðrum hætti en að samþykkja það frumvarp sem hér liggur fyrir? Er möguleiki fyrir alþingismenn, Alþingi Íslendinga, að fara einhverja aðra leið og reyna einhverja aðra leið innan þess regluverks sem við erum í og höfum undirgengist, höfum við einhvern möguleika annan en þann að samþykkja þetta? Er möguleiki að við getum ýtt þessu til hliðar í einhvern tíma og kannað fleiri möguleika? Ef hægt hefur verið að ræða við þá ágætu menn sem búa í Brussel og eru þar innan Evrópusambandsins að víla og díla eins og það heitir um það sem fram fer í Evrópu um lyfjamál og lyfjamarkaðinn og það sem snertir okkur Íslendinga hvað það varðar, ef það hefur verið hægt er þá ekki alveg eins hægt að skoða þetta mál?

Frú forseti. Grunnur að þessu öllu er að Alþingi Íslendinga, þingmenn á þessu þjóðþingi, stendur sig ekki í því að fylgjast með tilskipunum sem koma frá EES, hvorki þegar þær eru í fæðingu né í umræðu. Við erum alltaf að taka við án þess að hafa komið að regluverkinu. Við getum komið að þessu regluverki án þess að vera í ESB. Við getum unnið heimavinnuna okkar miklu betur hvað þessar tilskipanir varðar en við erum að gera, miklu betur. Það ætti, frú forseti, að vera sú áminning til okkar þingmanna um með hvaða hætti við getum unnið betur í þeim verkum og í því sem að okkur snýr og hvernig við getum með einum eða öðrum hætti komið að þessum tilskipunum í fæðingu, haft áhrif á það þar en ekki gleypa hrátt allt sem fram kemur.

Ég er einn þeirra þingmanna sem er hlynntur því að farið verði í aðildarviðræður við Evrópusambandið og greiddi því atkvæði í júlímánuði. Ég gerði það vegna þess að ég vil að þessi umræða gangi til enda og að við skoðum hvað kemur í þeim samningi ef og þegar og þá. En þú selur ekki frá þér jáið þitt án þess að vita hvað það er sem þú ætlar að segja já við. Evrópusambandið sem slíkt er engin allsherjarlausn á einu eða neinu. Það er regluverk sem við viljum hugsanlega, ef og kannski, verða aðilar að. Það skyldi þó ekki vera, frú forseti, að þegar kemur að því að ræða um þann samning við þjóðina þá verði það ekki landbúnaðurinn, ekki gúrkurnar og tómatarnir, ekki fiskurinn, þorskurinn, ýsan og allar aðrar tegundir — heldur verði umræðan við þjóðina sú hvort fólk getur keypt Cheerios á Íslandi eður ei, hvort við getum keypt einhverja ákveðna tannkremstegund eður ei? Ef þeir sem eiga verðmæt vörumerki, eins og við erum að tala um hér, vilja fara einhverjar ákveðnar leiðir getur einfaldlega farið svo að hér verði ákveðin vörumerki ekki til ef ég skil þetta rétt.

Ég ætla ekki að áætla um það hér og nú hvað gerist þegar og ef við förum í þessar viðræður og þegar og ef samningur verður borinn undir íslensku þjóðina, en mín tilfinning fyrir þessu máli er sú að við eigum að gera það sem við getum til að koma í veg fyrir að við þurfum að taka þetta upp ef það er möguleiki. Þekkingu mína þrýtur hvað það varðar en ég kýs að líta svo á að við eigum að setja þetta til hliðar og kanna möguleikana á því að við þurfum ekki að taka þessa tilskipun upp.