138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

vörumerki.

46. mál
[17:15]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir ræðuna. Hún talaði af jafnmiklum krafti og innlifun og venjulega þegar hún kemur upp í ræðustól.

Ég hef hins vegar metið þetta mál þannig að hér séum við að tala um meiri hagsmuni fyrir minni. Við erum að tala um það sem við teljum skipta mestu máli og ástæðan fyrir að við skrifuðum undir EES-samninginn var sú að við vildum fá aðgang að innri markaði Evrópusambandsins. Það þýðir að ýmislegt fylgir því, það var ekki þannig að við fengjum allt fyrir ekki neitt, heldur þurftum við að sjálfsögðu að leggja eitthvað fram, m.a. þurftum við að aðlaga okkur regluverkinu sem tilheyrir innri markaði Evrópusambandsins.

Ég tek hins vegar undir að ýmislegt mætti betur fara varðandi vinnubrögð þingsins í samskiptum gagnvart Evrópusambandinu. Það var rætt um það hérna fyrir hrun að komið yrði á reglulegum fundum með þingnefndum Evrópuþingsins og mér skilst að það hafi m.a. verið ein af tillögunum í Evrópuskýrslu Björns Bjarnasonar um hvernig væri hægt að styrkja EES-samninginn. Hins vegar hefur lítið frést af þessu og ég mundi gjarnan vilja að hv. þingmaður tæki þetta jafnvel aftur upp innan forsætisnefndar þar sem hún situr.

Ég sit síðan sjálf í bæði viðskiptanefnd og menntamálanefnd og hef óskað eftir því að við köllum starfsmenn ráðuneyta í Brussel á okkar fund þegar þeir eru á landinu og könnum hvernig við getum tryggt samkeppnina sem við vorum að tala um og höfum áhyggjur af sem varða þennan þátt. Hvernig væri að við tækjum okkur til og styrktum og efldum Samkeppniseftirlitið? Það tekur inn í gjaldtöku um 450 millj. á þessu ári og kostnaðurinn við að reka það er 285 millj. þannig að það er greinilegt að þarna er Samkeppniseftirlitið að vinna vinnuna sína (Forseti hringir.) en er samt að biðja um aukafjárveitingu frá þinginu núna.