138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

vörumerki.

46. mál
[17:19]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það liggi nokkurn veginn fyrir eftir ræðu hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur að ég er að mörgu leyti sammála því sem hún er að segja. Ég tel að það sé samt ekki endilega í þessu máli sem við getum gert þetta. Við þurfum að byrja á málum mun fyrr í ferlinu, við tökum ekki slaginn þegar búið er að samþykkja löggjöf Evrópusambandsins, tilskipanir eða gerðir, við gerum það áður en það er búið. Það er tækifæri til þess innan EES-samningsins sem, eins og kom fram í þessari skýrslu hjá Birni Bjarnasyni sem ég minntist á hérna áður, við erum alls ekki að nýta okkur. Það var ætlunin að breyta þessu verklagi en það hefur því miður gleymst eins og kannski svo margt annað í tengslum við þetta hrun þegar við höfum einbeitt okkur að því að bjarga hlutum frá degi til dags.

Eins og ég benti á væri til bóta ef við þingmenn stæðum saman í því að styrkja Samkeppniseftirlitið og tryggja að það sé raunveruleg samkeppni á þessum fákeppnis- eða (Forseti hringir.) einokunarmarkaði sem við búum á hér í dag.