138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

vörumerki.

46. mál
[17:23]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ekki ætla ég að deila við hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur um það hvernig málum er fram haldið og hvernig þau fara fram í Brussel og hjá Evrópusambandinu því að það þekkir hún sjálfsagt manna best í þessum þingsal. Ég er mér fullkomlega meðvituð um að við munum hafa ívið meiri áhrif í Evrópusambandinu en eingöngu með EES-samningnum eins og fram kom hjá hv. þingmanni. Það verður hins vegar að fara í gegnum þann feril allan af miklum krafti jafnt sem grandskoðun til að hagsmunir okkar séu og verði tryggðir, þeir hagsmunir sem við sem þjóð teljum ríkasta fyrir okkur að halda í og berjast fyrir.

Það var kannski meira til gamans gert að nefna þetta með Cheerios-ið en að ég hefði einhvern sérstakan áhuga á þeirri vöru. [Hlátur í þingsal.] Það er hins vegar þannig, frú forseti, að ýmislegt smátt hefur stærri sess í hugum fólks en það sem okkur þingmönnum þykir stórt.