138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[17:59]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að frá því að ég komst til einhvers þroska hef ég gerst æ sannfærðari um að allir menn séu fæddir jafnir og eigi jafnan rétt til að lifa lífinu frjálsir og hamingjusamir. Þetta stendur í frægri stjórnarskrá og mér finnst þetta ákaflega fallegt. Mér finnst jafnrétti felast í því að allir hafi aðgang að sömu tækifærum. Mér finnst að konur og karlar eigi að hafa aðgang að nákvæmlega sömu tækifærum.

Það hefur aldrei hvarflað að mér síðan ég komst af rómantíska skeiðinu sem unglingur að konur væru upp til hópa hótinu skárri en karlmenn. [Hlátur í þingsal.] Mér dettur það ekki í hug enn þann dag í dag, þær eru nákvæmlega jafngallaðar verur og karlmenn eru, en það breytir ekki því að það þjóðfélag sem við búum í er þjóðfélag beggja kynjanna og bæði kynin eiga að hafa sömu réttindi, lúta sömu reglum, sömu lagaákvæðum, hafa aðgang að sömu menntun, sömu tækifæri til menntunar og sömu tækifæri til að þróa líf sitt og lifa lífi sínu eins og löngun þeirra og náttúra stendur til.

Mér finnst það vera komið út í tóma vitleysu ef jafnréttisstefna sem ég stend fyrir og skal alltaf standa fyrir og pólitísk rétthugsun er komin út á þann hála ís að ætla að fara að lögbinda hvernig fyrirtæki eru rekin í landinu, hvort kynið rekur fyrirtæki. Mér finnst þetta svona svipað og að ætla sér að banna karlmönnum að reka hannyrðabúðir. (Gripið fram í: Þetta er spurning um að fá tækifæri.) Tækifærin eru til staðar. Tækifærin koma með menntuninni, með aðgangi að því að læra það fag sem viðkomandi karl eða kona vill starfa í. Það að ætla að setja reglur eða lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja finnst mér, ég verð bara að segja það hreint út, jafngeggjað og að setja lög um það að dómskerfið skuli kveða upp í heildina og sjá til þess að konur fái jafnmiklar refsingar og karlar, heilt yfir, þó að það sé margsannað mál að glæpahneigð eða lögbrotatíðni kvenna er mun minni en lögbrotatíðni karla — að því gefnu að lögreglan handtaki þá rétt fólk. Mér finnst þetta svipað og að fara fram á það við skattstjóra að meðal 100 efstu skattgreiðenda í hverju héraði séu örugglega jafnmargar konur og karlar. Ég vil bara að menn hugsi sig aðeins betur um þegar þeir ætla í ofsa eða hrifningarvímu pólitísks rétttrúnaðar að láta gott af sér leiða. Það er vandi að koma góðu til leiðar. Það er ekki nóg að hafa góðan vilja, menn hafa í gegnum tíðina unnið voðaverk í óskaplega fallegum tilgangi. Ég er ekki að segja að það sé voðaverk nema þá gagnvart konum að ætla að fara að tryggja þeim ákveðið pláss í þessum skelfilegu hlutafélögum.

Í heildina tekið efast ég um að afleiðingar þess séu eða verði jákvæðar. Það sem við verðum að vaka yfir hvert einasta augnablik er að tryggja jafnrétti í alvörunni á breiðum grundvelli sem hluta af frelsi manneskjunnar.