138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[18:05]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Þráinn Bertelsson lýsir andstöðu við þá breytingartillögu sem ég talaði fyrir úr ræðustól rétt áðan. Hann kom inn á kröfuna um að skattgreiðslur yrðu þær sömu og slíkt og þá vil ég minna á áratugabaráttu kvenna og karla að einhverju leyti fyrir jöfnum launum kynjanna. Það hefur ekki gengið mjög vel, það er barátta sem er mjög erfitt að heyja og þó má segja að það séu mannréttindi að fólki sé ekki mismunað í launum eingöngu eftir kyni.

Ég get alveg verið sammála því að það er erfitt, frú forseti, að löggjafinn þurfi að hlutast til um málefni fyrirtækja með þessum hætti þó að við gerum það á ýmsum sviðum, við setjum þeim reglur og skapalón um ýmsa hluti, en ég vil þá í því sambandi benda á að síðustu 10 ár hafa verið óbreytt kynjahlutföll í stjórnum fyrirtækja á Íslandi. Í minni fyrirtækjum eru konur um 20% í stjórnum og í stærri fyrirtækjunum um 10%. Því vil ég spyrja hv. þm. Þráinn Bertelsson hvort hann sé ekki tilbúinn til að hugleiða þá róttækni að leiða slíkt í lög um 40% kynjakvóta til að reyna að rétta þessa miklu skekkju og aðgengi kvenna að valdastöðum. Svo ef vel gengur getum við aflagt þessa reglu síðar og þá erum við búin að koma af stað hugarfarsbreytingu.