138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[18:11]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði í hálfkæringi áðan að ég tryði því ekki að konur væru hótinu skárri en karlmenn og af því að ég fæ svona skemmtileg viðbrögð við þessu innleggi mínu langar mig til að taka fram að sumar konur standa flestum karlmönnum langtum framar.

Ég hef ekki augnablik efast um vald Alþingis til að setja reglur um nákvæmlega hverjir gera hvað í þjóðfélaginu og það er hægt að beita valdi svo mjög að þjóðfélagið verði óbærilegt fyrir þjóðfélagsþegnana. Ég er ekki í nokkrum einasta vafa um það að við getum sett það í lög að 50% af stjórnendum fyrirtækja séu konur, ég er heldur ekki í nokkrum vafa um það að það kallar á viðbrögð frá þeim sem eiga og stjórna fyrirtækjum. Sumir munu leita að hæfum konum, aðrir munu leita að hæfum konum sem eru bara leikbrúður og svona eins og búktalaradúkkur. Við eigum ekki að ganga inn í að handstýra þjóðfélaginu í smáatriðum, við eigum að búa til bærilegt þjóðfélag. 90% fanga eru karlar, því breytum við ekki með því að skipa dómstólum að dæma færri karla og fleiri konur í fangelsi. Við gerum það með því að breyta þjóðfélaginu á annan hátt. (Gripið fram í.)