138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

vextir og verðtrygging.

12. mál
[19:10]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að heyra hversu góðan hljómgrunn þetta mál fær hjá þingmönnum, enda er það nú svo að þingmenn úr öllum flokkum hafa tjáð sig um þessi mál í gegnum tíðina. Það sem við horfum hins vegar fram á núna er það að búið er að taka af skarið með það að leggja til ákveðna tillögu sem mun örugglega fá góða umfjöllun í viðskiptanefnd eins og hér hefur komið fram.

Við höfum séð núna undanfarið skýrustu merki þess hvernig verðtryggingin virkar á þá sem skulda. Það er ljóst að einhverjir hafa hag af því að vera með verðtryggingu en hins vegar þurfa þessir hagsmunir að fara saman og það gera þeir klárlega ekki í dag, þ.e. að samband lánveitanda og lántaka er ójafnt vegna þess að lántakinn ber alla áhættuna. Það er m.a. það sem þetta frumvarp gengur út á, þ.e. að jafna þennan mun og dreifa áhættunni í staðinn fyrir að einstaklingar, heimilin, lántakendur beri alla áhættuna.

Hér hefur verið vitnað í hagfræðinginn Michael Hudson sem talaði um paradís lánardrottna. Það er vitanlega eitthvað sem við getum ekki látið um okkur spyrjast að hér sé paradís lánardrottna, hugsanlega paradís þeirra sem vilja ávaxta fé sitt með einföldum en árangursríkum hætti á kostnað hugsanlega okkar sem erum frekar andvaralaus í því að taka lán fyrir húsnæði og öðru slíku til að koma okkur upp heimili. Það er því mikilsvert að þetta verði skoðað ofan í kjölinn.

Það er auðvitað rétt sem fram kom hjá hv. þm. Illuga Gunnarssyni að núna er ákveðið tækifæri til að stíga þessi skref og því er mikilvægt að málið fari sem fyrst til viðskiptanefndar og fái þar góða umfjöllun því að við eigum ekki að láta þetta mál þvælast um í þinginu án þess að fjalla efnislega um það. Við verðum að þora að taka umræðuna því að það er alveg ljóst að það munu ýmsir stórir og miklir varðhundar fara á stjá þegar frumvarpið fer í nefnd. Við verðum að hafa kjark til þess að horfast í augu við þá, hlusta vitanlega á rökin, það eru einhver mótrök, við verðum að hlusta á þau en við verðum líka að hafa kjark til þess að segja: Nú er nóg komið, við getum ekki lengur lagt þetta á hinn venjulega Íslending að bera alla þessa áhættu.

Það hefur margt gott verið sagt hér í ræðustól, hv. þm. Lilja Mósesdóttir minntist m.a. á hækkun höfuðstóls lána um 25% og ég ítreka það sem ég sagði í upphafi míns máls að það er enn ein sönnun á því hvers konar óskapnaður þetta er sem verðtryggingin er núna. Það kann að vera að einhvern tíma hafi hún verið þörf og nauðsynleg en það er langt síðan það var. Ég hygg að það megi finna í samþykktum flestra stjórnmálaflokka einhvers konar samþykktir um að það beri að endurskoða verðtrygginguna, afnema hana í áföngum, afnema hana alveg eða hvernig það er. Því er ánægjulegt og mikilvægt að allir flokkar komi að þessari vinnu við að reyna að finna leiðina út úr þessu.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Ég þakka þingmönnum fyrir þau viðbrögð sem þeir hafa sýnt við frumvarpinu. Ég veit að það er hægt að treysta þeim orðum sem hér hafa fallið varðandi efnislega og vandaða umfjöllun um málið og ég trúi ekki öðru en að komið sé að tímamótum á Alþingi varðandi verðtryggingu á lánum.