138. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2009.

störf þingsins.

[10:32]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Það skiptir máli hvað sagt er í stóli Alþingis. Ég hygg að flestir vilji trúa því að þingmenn segi sannleikann og mæli hér af bestu vitund og þekkingu. Í gær féllu ummæli þess efnis að ég hefði sem umhverfisráðherra fellt ólöglegan úrskurð um sameiginlegt mat, umhverfismat á Bakka, eins og það hefur verið kallað. Það gerði ég ekki. Umboðsmaður Alþingis hefur aldrei gefið álit á þeim úrskurði, það liggur fyrir. Það er hverjum er frjálst að skoða úrskurði umboðsmanns Alþingis og kynna sér málið. Hann hefur aldrei gefið álit á þeim úrskurði.

Það er mjög alvarlegt að vera borin svo þungum sökum héðan úr þessum stóli og það hlýtur að leiða til þess að sá sem lét ummælin falla biðjist afsökunar og dragi þau til baka. Umboðsmaður Alþingis hefur aldrei gefið álit á úrskurði mínum um sameiginlegt mat á Bakkaframkvæmdunum. Það liggur fyrir og um staðreyndir þarf varla að deila, frú forseti.