138. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2009.

störf þingsins.

[10:40]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að beina fyrirspurn til formanns fjárlaganefndar hv. þm. Guðbjarts Hannessonar vegna bréfs sem fjárlaganefnd barst frá bæjarstjórn Snæfellsbæjar sem varðar þjóðgarðinn Snæfellsjökul. Það kemur fram í þessu bréfi að bæjarstjórnin fer fram á að þjóðgarðurinn Snæfellsjökull verði gerður að sjálfstæðri stofnun. Það eru þrír þjóðgarðar starfandi á Íslandi, Vatnajökuls-, Þingvalla- og Snæfellsjökulsþjóðgarður. Uppbygging í þjóðgarðinum á Snæfellsjökli hefur nánast ekki verið nein. Þessu til rökstuðnings benda bæjarfulltrúar á að á árinu 2009 fengu Þingvellir 106 millj., Vatnajökull 406 millj. og Snæfellsjökull fékk 29 millj. Svona hefur þetta verið frá upphafi og öll áform um að uppbygging á gestastofu vegna þjóðgarðsins hefur aldrei náð fram að ganga. Það er búið að slá það algerlega út af borðinu og krafan er þessi, frú forseti, að það sé jafnt skorið niður hjá öllum. Það gera sér allir grein fyrir því að það þarf að skera niður hjá öllum en það verða allir að njóta sanngirni, þarna eins og alls staðar annars staðar. Hér er einn sleginn út af borðinu en hinir halda áfram.

Í fjárlagafrumvarpinu núna er gert ráð fyrir nákvæmlega sömu niðurstöðum, þ.e. Þingvallaþjóðgarður fær 107 millj., Vatnajökulsþjóðgarður 380 millj. og Snæfellsjökulsþjóðgarður fær 29 millj. Það er í raun og veru komið alveg skýrt fram, af því að þetta er eini þjóðgarðurinn sem er undir Umhverfisstofnun, að Umhverfisstofnun hefur brugðist í þessu máli, að mínu viti. Það hefur engin uppbygging átt sér stað á þessum þjóðgarði sem á mjög fljótlega tíu ára afmæli. Því vil ég beina því til hv. þm. Guðbjarts Hannessonar hvort hann muni ekki ásamt mér og fleirum, berjast fyrir því að þetta verði leiðrétt í meðförum fjárlaganefndar. Það kom fram hjá umhverfisráðuneytinu þegar það kom fyrir fjárlaganefnd að færðar voru 50 millj. af stofnfé frá Vatnajökulsþjóðgarði inn í rekstur. (Forseti hringir.) Það er algerlega bannað og ég vil beina því til hans líka hvort hann muni (Forseti hringir.) ekki taka þátt í því að skoða það mál enn frekar.