138. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2009.

ummæli í utandagskrárumræðu -- loftslagsráðstefna -- þjóðgarðurinn Snæfellsjökull -- lán OR.

[10:51]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp vegna orða hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar, vegna þess hvernig áherslur framkvæmdarvaldið og löggjafarvaldið leggja og má segja að löggjafarvaldið hafi verið hér í gíslingu síðan þessi ríkisstjórn tók við völdum. Það varðar loftslagsráðstefnuna í Kaupmannahöfn en ég hef margoft bent á úr þessum ræðustól að þar verður rætt um mestu hagsmuni Íslendinga í þessum málum fyrr og síðar.

Það hefur vart farið fram hjá neinum að þingið hefur varla verið starfhæft undanfarna daga og síðustu viku vegna ferða forseta þingsins, hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar og hv. þm. Þuríðar Backman, til að kynna öðrum þjóðum umsókn okkar að Evrópusambandinu. Er þetta það sem er í forgangi nú hjá ríkisstjórninni á meðan ekki er hægt að senda þingmenn á loftslagsráðstefnuna þar sem skera á úr um hvort Íslendingar haldi sínum 75% af þeim losunarheimildum sem þeir náðu í gegn með íslenska ákvæðinu?

Frú forseti. Það er ekki annað hægt en að vera hugsi yfir þessum áherslum. Ég fordæmi þessar ákvarðanir og óska eftir þess að ríkisstjórnin endurskoði hug sinn, að Alþingi haldi þeirri reisn sem það þarf í loftslagsmálunum og fái leyfi til þess að senda a.m.k. einn frá hverjum flokki úr stjórnarandstöðunni til Kaupmannahafnar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)