138. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2009.

ummæli í utandagskrárumræðu -- loftslagsráðstefna -- þjóðgarðurinn Snæfellsjökull -- lán OR.

[10:52]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Ólöfu Nordal fyrir að minna okkur Íslendinga á vextina af Icesave. Ég vil sömuleiðis þakka hv. þm. Lilju Mósesdóttur fyrir svar hennar því að það er rétt sem hún sagði, vextirnir ættu að vera miklu lægri. Á þessu láni er ríkisábyrgð og í rauninni ættu Bretar og Hollendingar að borga íslenska ríkinu ríkisábyrgðargjald fyrir að taka á sig ábyrgð á þessu láni sem formlega séð er veitt til sjálfseignarstofnunar á Íslandi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Það eru gífurleg mistök og það sem verra er, þessir 5,55% vextir, sem verða örugglega raunvextir í evrum og pundum til 20–30 ára, munu verða ævarandi. Þeir gætu orðið ævarandi vegna þess að við Íslendingar sjáum fram á mikla skerðingu lífskjara á næsta ári eftir þau áföll sem við höfum lent í, það verður mjög erfitt að ná okkur upp. Ef við lendum í þeirri stöðu að hér verði ekki hagvöxtur munum við þurfa að borga þessa gríðarlegu vexti engu að síður þó að við getum það ekki og skuldin verður áfram til. Við munum halda áfram að borga vexti og aftur vexti af láninu og það hverfur aldrei. Það getur varað í 100 ár, frú forseti, ef við lendum í þeirri stöðu. Við lendum í ákveðnum vítahring sem við getum ekki unnið okkur út úr.

Það má ekki gerast, frú forseti, og ég skora á alla hv. þingmenn, hvern einasta, að skoða hug sinn til Icesave-samkomulagsins. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)